Assange hyggst sækja um hæli í Frakklandi

20.05.2017 - 01:48
epa05974906 Julian Assange speaks to the media from the balcony of the Ecuadorian Embassy in London, Britain, 19 May 2017. Swedish prosecutors have dropped their rape case against WikiLeaks founder Julian Assange, according to news reports.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hyggst leita hælis í Frakklandi, nú þegar sænsk lögregluyfirvöld hafa hætt rannsókn á máli hans og fellt niður handtökuskipun á hendur honum þar sem sakargiftirnar séu fyrndar. Lögfræðingar Assange greindu frá þessu í kvöld, eftir að fréttir bárust af því að Assange væri laus allra mála í Svíþjóð, þar sem hann var grunaður um nauðgun.

Skömmu eftir að tíðindin bárust birtist Assange á svölum ekvadoríska sendiráðsins í Lundúnum, þar sem Assange hefur haldið til síðustu fimm árin af ótta við að verða framseldur til Svíþjóðar og þaðan til Bandaríkjanna. Hann lyfti krepptum hnefa til marks um ánægju sína með tíðindi dagsins og sagði þetta mikinn sigur fyrir sig og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Sjö ár án ákæru, á meðan börn mín uxu úr grasi án mín,“ sagði Assange, „það er nokkuð sem ég get hvorki gleymt né fyrirgefið.“ Breska blaðið The Telegraph hefur eftir lögmanni hans, Juan Branco, að Assange muni í framhaldinu sækja um hæli handan Ermarsundsins, í Frakklandi, en hann hefur dvalið í sendiráði Ekvadors í Lundúnum síðan hann sótti þar um hæli í júní 2012.

„Ég vil þakka Ekvador fyrir að veita mér hæli, þrátt fyrir þrýsting um að gera það ekki,“ sagði Assange. „Við eigum öll rétt á að sækja um hæli, fá hæli og njóta verndar. Ég hef þann rétt, við höfum öll þann rétt,“ sagði Assange, með vísan í flóttamanna- og mannréttindasamþykktir Sameinuðu þjóðanna. Þá hét hann því að Wikileaks myndi starfa áfram af fullum krafti.