Assad vill verða bjargvættur Sýrlands

21.02.2016 - 07:37
epa04861260 A handout photo released by Syria's Arab News Agency (SANA) shows Syrian President Bashar Assad delivering a speech during a meeting with heads and members of public organizations, vocational syndicates, and chambers of industry, trade,
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.  Mynd: EPA  -  SANA
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, vill að eftir tíu ár verði hans minnst sem mannsins sem bjargaði Sýrlandi. Þetta er haft eftir honum í viðtali við spænska dagblaðið El Pais í gær. Hann svaraði engu um hvort hann yrði ennþá forseti þá.

Það má segja að Assad sé þungamiðja átakanna í Sýrlandi. Þau hófust á því að stjórnarandstæðingar vildu velta honum úr sessi, en stjórnarherinn svaraði fyrir hann og réðist gegn andstæðingum. Í allri ringulreiðinni hafa vígasveitir á borð við þá sem kennir sig við íslamskt ríki sölsað undir sig landsvæði.
Assad segist tilbúinn til þess að koma á vopnahléi, en aðeins ef uppreisnarsveitir og ríki sem styðja við bakið á þeim noti það ekki til þess að ná yfirráðum.

Hann segir að hann sjái það fyrir sér að hann verði búinn að bjarga ríkinu eftir tíu ár. Það sé vinnan hans að Sýrlendingar séu heilir á húfi. Hann segist ekki vita hvort hann verði enn forseti eftir tíu ár. Vilji sýrlenska þjóðin það, þá gegni hann embættinu, en ef hún vilji hann ekki geti hann ekkert í því gert. Geti hann ekki hjálpað þjóð sinni verði hann að hafa sig á brott.
Assad segir vopnahlé snúast um að koma í veg fyrir að önnur ríki, þá sérstaklega Tyrkland, bæti í herlið sitt í landinu.

Sýrlenski stjórnarherinn sækir hart að uppreisnarsveitum í Aleppo. Herinn nýtur aðstoðar Rússa og Írana og segir Assad stuðning þeirra ómissandi. Sýrland þurfi á aðstoðinni að halda vegna þess að yfir 80 ríki styðji við uppreisnarsveitir, sem hann kallar hryðjuverkamenn. Sum þeirra aðstoði beint með fjárframlögum, vopnaflutningum og herliði. Önnur aðstoði á pólitískan hátt.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV