Assad hyggst ná Sýrlandi öllu á sitt vald

13.02.2016 - 02:37
epa04986399 A picture made available on 21 October 2015 shows Syrian President Bashar al-Assad (L) during his meeting with Russian President Vladimir Putin (L) at the Kremlin in Moscow, Russia, 20 October 2015. Beleaguered Syrian President Bashar al-Assad
Assad á fundi í Kreml með sínum helsta bandamanni, Vladimír Pútín.  Mynd: EPA  -  RIA NOVOSTI POOL
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hefur lýst því yfir að hann hyggist ná Sýrlandi öllu aftur á sitt vald og hrekja allar uppreisnarsveitir af höndum sér. Þetta kemur fram í viðtali sem forsetinn veitti AFP-fréttaveitunni. Hann viðurkennir að þetta geti tekið töluverðan tíma og orðið dýrkeypt, vegna afskipta nágrannaríkja og fleiri þátta, en markmiðið sé skýrt.

Í gærkvöldi sömdu fulltrúar 17 ríkja, Arababandalagsins, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna um það sem í upphafi var kynnt sem vopnahlé en hefur í framhaldinu verið kallað „hlé á átökum“, sem enginn virðist vita fyrir hvað stendur í raun.  Það grefur svo enn undan samkomulaginu, að hvorki Sýrlandsstjórn né sýrlenskir stjórnarandstöðuhópar eiga aðild að samkomulaginu, öfugt við það sem fram kom í fjölmiðlum víðast hvar, þar á meðal hér á RÚV, fyrst eftir undirritun þess.

Assad er vígreifur í viðtalinu, sem var tekið í Damaskus á fimmtudag, skömmu áður en tilkynnt var um fyrrnefnt samkomulag, og kom forsetinn víða við.  Hann segist styðja friðarviðræður en viðræður þýði þó ekki að stjórnvöld myndu hætta að berjast gegn hryðjuverkum. Aðspurður um harða sókn stjórnarhersins að Aleppo, og miklar loftárásir Rússa á borgina í tengslum við hana, sagði hann markmiðið að loka birgðaflutningaleið uppreisnarmanna til borgarinnar frá Tyrklandi.

Ásökunum um stríðsglæpi stjórnarhersins, sem komið hafa frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna, vísaði hann á bug og sagði þær sprottnar af pólitískum rótum.

Talið barst einnig að þeim milljónum Sýrlendinga sem hafa flúið land vegna stríðsástandsins, þar á meðal til Evrópu. Assad segir stjórnvöld í Evrópu bera fulla ábyrgð á flóttamannastraumnum þangað og þeim vandamálum sem honum fylgja. Þau hafi í raun orsakað þetta sjálf með því að stuðningi við hryðjuverkasamtök í landinu og refsiaðgerðum gegn lögmætum stjórnvöldum; stjórn Assads.