Ásmundur Arnarsson hættur með Fram

19.06.2017 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Arnarsson og stjórn knattspyrnudeildar Fram komust í dag að samkomulagi um starfslok hans hjá félaginu en hann var þjálfari meistaraflokks karla.

Eða svo segir í fréttatilkynningu á heimasíðu félagsins. Ásmundur hefur aðra sögu að segja.

Óvænt tíðindi

Ásmundur var ráðinn þann 5. október 2015 og átti að stjórna uppbyggingu félagsins en liðið féll úr Pepsi deildinni haustið 2014. Í fyrra sigldi liðið lygnan sjó í Inkasso deildinni og endaði að lokum í sjötta sæti deildarinnar með 30 stig eftir 22 leiki. 

Markmið sumarsins voru að reyna koma liðinu aftur í Pepsi deildina en eftir sjö leiki situr liðið í fimmta sæti með 11 stig. Eftir góða byrjun þá hefur liðið nú tapað tveimur leikjum í röð, gegn Þór Akureyri á heimavelli og Fylki á útivelli.

Mönnum ber ekki saman

Í viðtali við fotbolta.net sagði Brynjar Jóhannesson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fram, að stjórn félagsins hafi ekkert meira að segja en það sem kom fram í tilkynningunni. Hann vill því meina að báðir aðilar hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Jafnframt segir Brynjar að Ólafur Brynjólfsson, aðstoðarþjálfari félagsins, muni stjórna æfingum í vikunni sem og leiknum gegn Gróttu á fimmtudag.

Ásmundur var sömuleiðis í viðtali hjá fotbolti.net en þar segir hann að honum hafi verið sagt upp. Hann segist mjög ósáttur með niðurstöðuna en hann vildi fá meiri tíma til að byggja liðið upp.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður