ASÍ: „Erum að falla á tíma“

19.01.2016 - 08:04
OLYMPUS DIGITAL CAMERA          Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
 Mynd: Alþýðusamband Íslands
Stefnt er að því að undirrita nýja kjarasamninga á grundvelli svokallað SALEK-samkomulags á morgun. Forseti ASÍ segir samninga í uppnámi gefi stjórnvöld ekki fullnægjandi svör um lækkun tryggingagjalds.

Morgunblaðið greinir frá því í morgun að samninganefndir ASÍ og Samtaka atvinnulífsins bindi vonir við að geta undirritað nýja kjarasamninga á morgun. Þar sé gert ráð fyrir 6,5% hækkun.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ staðfestir að viðræðurnar séu langt komnar. „Þetta er þó ekki komið í land, það er enn ágreiningur um tvö atriði. En við höfum stefnt að því að ljúka þessu og undirrita á morgun. En það ræðst auðvitað af því hvort það komi þannig svör frá ríkisstjórninni að atvinnurekendur séu tilbúnir til að ganga til samninga.“

Þarna á Gylfi einkum við lækkun tryggingagjalds, sem beðið hefur verið eftir í tvo mánuði. „Ég held að við séum að falla á tíma með það, annaðhvort tekst þetta eða ekki. Og ef ekki þá er miklu meira í uppnámi því þá fer málið til endurskoðunar samninga í febrúar í þeirri stöðu. Þannig að ég held að það sé býsna mikið undir, ekki bara fyrir vinnumarkaðinn heldur fyrir samfélagið.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV