ASÍ boðar hugsanlegar aðgerðir vegna Rio Tinto

20.01.2016 - 21:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjaradeila starfsmanna álversins í Straumsvík við yfirmenn sína er orðin að grundvallardeilu um rétt starfsmanna til að semja um kaup sín og kjör. Þetta segir forseti Alþýðusambandsins. Svo kunni að fara að fleiri stéttarfélög myndu fara í samúðarverkfall með starfsmönnum álversins.

Sam Walsh, forstjóri Rio Tinto, tilkynnti í síðustu viku að til að hámarka lausafé hefði verið ákveðið að frysta allar launahækkanir í fyrirtækjum samsteypunnar á þessu ári frá forstjóra og niður úr. Álverið í Straumsvík er eitt þessara fyrirtækja. „Hér eru auðvitað leikreglurnar þannig að laun og kjör ráðast í samskiptum stéttafélaganna við fyrirtækin og samtök fyrirtækja og það gengur ekkert að senda út svona einhliða tilskipanir um það að nú sé búið að loka sjoppunni,“ segir Gylfi.

Með þessu hafi kjaradeilunni verið breytt í grundvallardeilu um rétt starfsmanna til að semja um sín kaup og kjör. „Það er býsna alvarlegt og ljóst að verkalýðshreyfingin að öðru leyti og aðildarfélög alþýðusambandsins munu ekkert sitja hjá í þeirri deilu. En til þess að önnur aðildarfélög Alþýðusambandsins og þá Alþýðusambandið geti farið lengra með málið, þá er ljóst að það þarf að vera í gangi félagsleg aðgerð í Ísal til þess að önnur félög gætu þá hugsanlega beitt samúðaraðgerðum.

Aðspurður hvort það verði verkfall sem fari út fyrir raðir Ísal-starfsmanna svarar Gylfi að það kunni að verða skoðað. „Mér finnst á umræðunni í minni hreyfingu að það sé að nálgast þann tímapunktinn að aðildarfélögin fari að skoða það. Það gæti farið þannig að það yrði farið að skoða þann möguleika að boða til samúðaraðgerða annars staðar.“

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV