Aron: Þarf að varast hraðaupphlaup Norðmanna

15.01.2016 - 10:30
„Norðmenn hafa verið í mikilli sókn síðastliðið eitt og hálft ár. Þeir eru erfiðir andstæðingar.“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari í handbolta. Ísland mætir Noregi í fyrsta leik sínum á EM í Póllandi í dag.

Leiðina að sigri á Norðmönnum segir Aron vera að standa vörnina. „Þeir koma með mikinn þrýsting og sterkar árásir þar sem við þurfum að klára maður á mann. Svo þurfum við að vera sterkir í hlaupunum til baka.“ segir Aron en Norðmenn eru skæðir í hraðaupphlaupum sínum.

„Þeir hlaupa mikil hraðaupphlaup, bæði fyrstu og aðra bylgju og klára sínar sóknir þannig. Þannig að við þurfum að minnka nýtingu þeirra í hraðaupphlaupum. Þar þurfum við að geta skipt bara einum manni út milli varnar og sóknar til að auðvelda okkur lífið.

Meiri agi kominn í sóknarleikinn

Þetta segir Aron að hafi tekist vel til í seinni vináttulandsleiknum gegn Þjóðverjum um helgina. „Já mér fannst það og þessir hlutir sem við höfum verið að vinna með í þessu hafa verið að virka. Það gefur okkur aðeins meira rými inn á milli að skipta á tveimur leikmönnum. Það kom líka meiri agi í sóknarleikinn á móti Þjóðverjum. Það er gríðarlega mikilvægt á móti Norðmönnum að vera með agaðan sóknarleik því þeir keyra mikið á hraðaupphlaupunum.“ segir Aron.

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 17:15 í dag og verður hann sýndur beint á RÚV og bein útvarpslýsing verður á Rás 2.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður