Aron segir sætið á HM snúast um peninga

10.07.2014 - 20:51
Mynd með færslu
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins og Kolding í Kaupmannahöfn, er ómyrkur í máli vegna þeirrar ákvörðunar IHF, alþjóðahandboltasambandsins, að láta Þjóðverjum eftir sæti Ástralíu á HM í Katar - ekki Íslandi.

Ákvörðun IHF um að eftirláta Þjóðverjum laust sæti á HM hefur vakið hörð viðbrögð hjá handboltahreyfingunni á Íslandi - menn stóðu í þeirri trú að Ísland væri fyrsta varaþjóðin inn á HM ef einhver hætti við.

Framkvæmdastjórn Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, breytti þátttökureglunum á fundi sínum í mars en sendi engar tilkynningar um breytinguna.  

Breytingin var á þá leið að í stað þess að fyrsta varaþjóð frá heimsálfu ríkjandi heimsmeistara Spánverja fengi laust sæti, þá væri varaþjóðin sú þjóð sem náði bestum árangri á síðasta heimsmeistarmóti en hefði ekki tryggt sér sæti í Katar. Það eru Þjóðverjar en rétthafagreiðslur fyrir sjónvarpsrétt í Þýskalandi eru gríðarlegar.

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari talar tæpitungulaust um þessa ákvörðun IHF í viðtali við danska Ekstrablaðið í dag. Þar segir hann þessa ákvörðun mjög dularfulla. „Við vorum númer eitt í röðinni vegna árangurs okkar á EM. Siðan koma Þjóðverjar og yfirtaka þetta allt. Þetta snýst um sjónvarpsréttindi og þar með peninga,“ segir Aron. „Réttlæti  - það er ekki til og við erum brjálaðir,“ segir Aron.

Rætt verður við Guðmund B. Ólafsson, formann HSÍ, í íþróttafréttum í kvöld.