Aron búinn að kæra árásina til lögreglu

30.12.2014 - 10:48
Mynd með færslu
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, fer í myndatöku í dag þar sem gengið verður úr skugga um að hann sé óbrotinn eftir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Hann segist hafa kært árásina til lögreglu enda hafi hún þegar haft sínar afleiðingar - hann missi af tveimur æfingum.

Visir.is greindi fyrst frá árásinni.

Aron segir í samtali við fréttastofu RÚV í morgun að liðslæknir landsliðsins hafi skoðað sig og hann hafi talið að hann væri óbrotinn. Myndatakan ætti þó að taka af allan vafa um það.

Aron segir að ráðist hafi verið á sig upp úr þurru. Hann hafi verið á leið í leigubíl um nóttina með frænda sínum þegar tveir menn réðust á hann en landsliðsmennirnir komu einn af öðrum til landsins um helgina til að hefja undirbúning fyrir HM í Katar. „Og það næsta sem ég veit er að ég ligg í jörðinni og árásarmennirnir flúnir af vettvangi,“ segir Aron sem hefur síðan haldið kyrru fyrir og haldið sér verkjalausum með verkjalyfjum.

Landsliðsmennirnir voru allir í fríi frá landsliðinu um helgina sem verður með opna æfingu á Seltjarnarnesi í hádeginu í dag.

Aron segir að í framhaldinu hafi síðan verið hringt á lögregluna og síðan hafi verið gert að meiðslum hans á slysavarðsstofunni. Leikmaðurinn kveðst hafa kært árásina til lögreglu og að formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, sé með það mál á sinni könnu.  „Ég ætla ekki að leyfa þessum mönnum að komast upp þetta enda hefur árásin þegar haft sínar afleiðingar - ég missi af tveimur landsliðsæfingum,“ segir Aron Pálmarsson.

freyrgigja@ruv.is