Árni Páll vann með einu atkvæði

20.03.2015 - 19:37
Árni Páll Árnason í ræðustól eftir að tilkynnt var um endurkjör hans sem formanns Samfylkingarinnar 20.3.2015.
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.  Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Árni Páll Árnason var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar með eins atkvæðis mun. Hann hlaut 241 atkvæði eða 49,49 prósent atkvæða, en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 240 atkvæði eða 49,28 prósent atkvæða. Anna Pála Sverrisdóttir hlaut eitt atkvæði.

„Þetta er sérkennileg niðurstaða,“ sagði Árni Páll þegar hann ávarpaði landsfundinn eftir að tilkynnt var úr úrslitin. Þá hafði hann verið endurkjörinn með eins atkvæðismun og innan við helmingi atkvæða. Árni Páll sagði þessa niðurstöðu leggja sér ríka ábyrgð á herðar, ábyrgð sem hann myndi reyna að axla. „Við verðum að snúa bökum saman og sækja fram ef okkur á vel að farnast.“

Atkvæði Önnu Pálu fagnað í upphafi
Formaður kjörstjórnar notaðist við stafrófsröð þegar hann greindi frá því hvernig atkvæði hefðu fallið. Fagnaðarlæti brutust út þegar þegar fyrsta nafnið var Anna Pála Sverrisdóttir og tilgreint að hún hefði fengið eitt atkvæði. Líklegt má teljast að þar hafi glens ráðið för. Það kom fljótt í ljós að litlu hefði munað á yfirlýstum frambjóðendum þegar formaður kjörstjórnar sagði Árna Pál hafa fengið 241 atkvæði og 49,49 prósent atkvæði. Spennan var því mikil þegar tilkynnt var um atkvæðafjölda og hlutfall Sigríðar Ingibjargar, 240 atkvæði og 49,28 prósent.

Opinberi væringar í flokknum
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að mótframboð Sigríðar Ingibjargar hafi komið á óvart. „Það hafa samt sem áður verið töluverðar væringar í flokknum undanfarið." Hann sagði mótframboðið opinbera þá togstreitu sem hafi verið milli þess fólks annars vegar sem vilji að flokkurinn fari lengra til vinstri og hins vegar þeirra sem vilja færa flokkinn inn á miðjuna eins og Árni Páll hafi talað fyrir, en einkum þó óánægju með að flokkurinn hafi ekki náð meira flugi.

Sólarhringslöng kosningabarátta
Sigríður Ingibjörg tilkynnti á sjöunda tímanum í gærkvöld að hún ætlaði að fara gegn sitjandi formanni. Fram að því hafði verið útlit fyrir að Árni Páll yrði sjálfkjörinn til áframhaldandi setu sem formaður Samfylkingarinnar.

Sigríður Ingibjörg sagðist í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld hafa fundið fyrir vaxandi þrýstingi um að einhver biði sig fram. Hún hefði verið hikandi í fyrstu en síðan ákveðið að taka slaginn. Aðspurð hvort þetta fæli í sér gagnrýni á sitjandi formann sagði hún að svo væri, ella væri hún ekki að bjóða sig fram.

Árni Páll sagði í 10-fréttum sjónvarps í gær að mótframboðið hefði komið honum á óvart. Hann sagðist telja að flokkurinn væri á réttri leið og hefði náð umtalsverðum árangri á einu ári. Árni Páll kvaðst hafa tekið við flokki með tólf prósenta fylgi sem mældist nú með fimmtán prósenta fylgi, að auki hefði flokkurinn víða náð mjög góðum árangri í sveitarstjórnarkosningum í fyrravor.