Árni Páll tilkynnir um ákvörðun sína á morgun

10.02.2016 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vill ekki svara því að sinni hvort hann hyggist gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákvað á fundi sínum í kvöld að flýta landsfundi flokksins til 4. júní, en hann átti að halda í byrjun árs 2017.

Í aðdraganda landsfundarins verður efnt til allsherjarkosningu, þar sem forysta flokksins verður kjörin. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld, vildi Árni Páll ekki svara því afdráttarlaust hvort hann muni bjóða sig fram til endurkjörs á landsfundi flokksins.

Í svari hans við fyrirspurn fréttastofu, svaraði Árni Páll: „Svara um mínar fyrirætlanir á morgun.“

Formaður Samfylkingarinnar hefur legið undir gagnrýni að undanförnu vegna ört minnkandi fylgis flokksins, sem mælist nú með 9,2 prósenta fylgi á landsvísu samkvæmt nýjustu könnun Gallup. Það er lægsta fylgi Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins árið 2000. 

Árni Páll var kjörinn formaður Samfylkingarinnar í febrúar árið 2013, og tók þá við keflinu af Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra. Þann 28. febrúar það ár mældist fylgi flokksins 15,4 prósent á landsvísu í könnun Gallup. Í tíð núverandi formanns náði fylgi flokksins hæstu hæðum í lok desember árið 2014, þegar það mældist 20,3 prósent. 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV