Árni og Bjarni saka hvor annan um óhróður

07.04.2016 - 11:17
Þingfundur hófst laust eftir klukkan ellefu. Nokkrar tafir urðu vegna tæknierfiðleika. Þingfundur átti upphaflega að hefjast klukkan 10:30. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var fyrstur í ræðustól. Hann sagði að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi átt viðskipti í skattaskjóli, þegar hann var þingmaður. Og spurði Bjarna hvernig hann sæi sér fært að vinna að því að endurreisa heiður Íslands á alþjóðavettvangi og auka sátt í íslensku samfélagi.

Bjarni Benediktsson sakaði Árna Pál um að rugla saman eðlilegum viðskiptum og óeðlilegum og setja allt undir einn hatt. Þá væri Árni Páll fyrst og fremst að hugsa um að bjarga eigin skinni, vegna þess að hann þori ekki á landsfund Samfylkingarinnar. Þá bætti Bjarni því við að Árni Páll hafi á árum áður starfað sem bankaráðsmaður í Búnaðarbankanum, þegar ákveðið var að opna útibú í Lúxemborg. Þannig hafi bankinn lagt grunninn að því að viðskiptum fjölmargra Íslendinga í gegnum útibú Búnaðarbankans í Lúxemborg.

Þá sagði Bjarni að í kosningunum í haust, myndi hann „ekki hlíta dómi háttvirts þingmanns, heldur dómi kjósenda í þessu landi.“

Árni Páll svaraði þessu meðal annars með því að sitt nafn væri ekki í Panama-skjölunum. Þá spurði hann um Bjarna: „Hvers vegna reynir hann að ata alla aðra auri í stað þess að víkja sjálfur til hliðar?“

Aðeins einn dagskrárliður er á dagskrá þingsins - óundirbúnar fyrirspurnir. Tími til þeirra er tvöfalt lengri í dag en venja er.