Arion sendi Degi bréf vegna Ísraelsmálsins

22.09.2015 - 12:23
Mynd með færslu
Frá blaðamannafundinum í ágúst 2015. Fyrir miðju er Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Co. Honum til vinstri handar er Sandeep Walia, svæðisstjóri Marriott í Evrópu.  Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Bankastjóri Arion banka sendi Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík, bréf þar sem hann vakti athygli á því að samþykkt borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur gæti teflt áformum um glæsihótel við Hörpu í tvísýnu.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arionbanka, sagðist í samtali við fréttastofu í morgun hafa orðið þess áskynja fyrir helgi að í eigendahópnum væru áhyggjur af samþykkt borgarstjórnar. 

Gyðingar í eigenda-og stjórnendahópi

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á þriðjudaginn í síðustu viku að fela borgastjóra og innkaupadeild að útfæra sniðgöngu á ísraelskum vörum.

Strax komu upp áhyggjur af því að þetta kæmi niður á ýmiskonar viðskiptahagsmunum. Eitt mikilvægasta byggingaverkefni í miðborg Reykjavíkur er nýtt hótel á byggingareitnum við hliðina á Hörpu. Tilkynnt var í ágúst að samningar hefðu náðst um að reisa þar fyrsta 5 stjörnu hótelið á Íslandi undir merkjum Marriott hótelkeðjunnar, fyrir 17 milljarða króna.

Bandaríska fasteignafélagið Carpenter and Company keypti byggingaréttinn. Í eigenda og stjórnendahópi þess eru gyðingar en einnig Íslendingurinn Eggert Dagbjartsson sem starfað hefur sem fjárfestir í Bandaríkjunum í áratugi. Við undirritun samninga var sagt frá málinu á heimasíðu Arionbanka.

Höfðu áhyggjur af framtíð verkefnsins

Þar kemur fram að bankinn hafi gengt mikilvægu hlutverki í verkefninu og komi að ýmsum hliðum þess. Bankinn hafi unnið að skipulagi fjármögnunar og lánsfjármögnunar og hafi átt frumkvæði að aðkomu Eggerts og bandaríska fasteignafélagsins Carpenter and Company.

Í samtali við fréttastofu staðfesti Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arionbanka að hann hefði sent bæði borgarstjóra bréf og stjórnarráðinu. Hann hefði enda orðið þess áskynja að í eigendahópi Carpenters og company væru uppi áhyggjur af framtíð verkefnisins í ljósi samþykktar borgarstjórnar. 

Eggert hafði áhyggjur

Dv fjallar um málið í dag en nefnir ekki hverjir í eigendahópnum höfðu áhyggjur. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru það ekki gyðingarnir í fyrirtækinu sem voru ósáttir við ákvörðun borgarstjórnar, heldur hafði Íslendingurinn Eggert áhyggjur af viðbrögðum þeirra. Höskuldur vildi ekki veita fréttastofu viðtal en staðfesti að hafa sent bréfin. 

Dagur B Eggertsson borgarstjóri varði ákvörðun borgarráðs alla síðustu viku en skipti um skoðun á laugardag og tilkynnti að hún yrði dregin til baka. Ástæðan sem hann gaf var að illa hefði verið staðið að ákvörðuninni og viðbrögðin hefðu verið meiri en hann bjóst við.

Í samtali við fréttastofu segir hann að bréfið hefði ekki skipt máli þegar hann tók ákvörðun um að hætta við sniðgöngu á ísraelskum vörum. Bréfið frá Höskuldi barst honum og stjórnarráðinu á laugardag. 

Engin hafði staðfestingu

Dagur var spurður út í óvissu um hótelbygginguna við Hörpu í Kastljósi í gærkvöld. Hann sagði marga hafa haft áhyggjur af neikvæðum áhrifum sem þetta geti haft á þann hóp fjárfesta sem stendur að byggingu fimm stjörnu Marriott hótels í miðborg Reykjavíkur, vegna þess að þar í hópi séu bandarískir gyðingar. „Ég hef heyrt í mörgum sem hafa haft áhyggjur af þessu máli vegna þessa að því tengjast bandarískir gyðingar fleiri en einn og fleiri en tveir yfir helgina en enginn þeirra hafði staðfestingu á þeirra hug.“

Dagur sagðist hafa fengið það staðfest að þetta muni engin áhrif hafa á þær framkvæmdir.„Mér finnst satt best að segja svolítið alvarlegt mitt í svona máli, þegar er verið að vinna úr því alþjóðlega, að einhverju svona sé kastað fram af forsætisráðherra landsins. Forsætisráðherra eða einhver frá ríkisstjórninni hefur ekki leitað til mín með einhverjar áhyggjur af einhverjum verkefnum eða einhverju slíku.“

Hefur engu breytt

Í yfirlýsingu frá Richard L. Friedman, forsvarsmanni fjárfesta í Edition Hotel Project, sem send var fjölmiðlum í gær kemur fram að áform þeirra séu óbreytt. „Við látum öðrum eftir pólitísk úrlausnarefni, hvort heldur er á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur hef ég fulla trú á umburðarlyndi Íslendinga og virðingu þeirra fyrir öllu fólki.“