„Arfavitlaust óhappaplagg“ segir skólameistari

10.03.2017 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Skólameistarar þriggja menntaskóla hafa sent inn umsögn um áfengisfrumvarpið svokallaða þar sem þeir lýsa andstöðu sinni við það. Skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði telur frumvarpið tímaskekkju og skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum segir frumvarpið arfavitlaust óhappaplagg.

Í frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt og ekki verði lengur bannað að auglýsa áfengi.  Frumvarpið er umdeilt og samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist um miðjan síðasta mánuð, er meirihluti landsmanna á móti því.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, segir í stuttri umsögn sinni til allsherjar og menntamálanefndar að hann mæli eindregið gegn því að smásölu með áfengi og tóbak verði breytt. 

Árni Ólason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, kveður ögn fastar að orði í sinni umsögn og kallar áfengisfrumvarpið „arfavitlaust óhappaplagg.“ Hann telur það skjóta skökku við að einstaka þingmenn eyði púðri í að reyna setja áfengi í almennar búðir á Íslandi á meðan Danir séu að reyna losna við þennan vágest úr sínum matvöruverslunum.  „Í guðanna bænum fellið þetta,“ skrifar Árni til þingnefndarinnar.

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans í Hafnarfirði, telur frumvarpið vera tímaskekkju. Hann bendir jafnframt á að nýjustu rannsóknir sýni að það sé að verða lífsstíll hjá ungmennum í dag að drekka ekki. Hann telur kerfið í dag vera faglegt og vel hugsað. Ef frumvarpið yrði samþykkt myndi það ganga í berhögg við stefnu stjórnvalda og vinnu hvort sem það er mennta og menningarmálaráðuneytis eða heilbrigðisráðuneytis. „Ég tel það síst verða til að bæta neitt að leggja af Vínbúðirnar og henda þessari vöru í stórmarkaði. Hætt er við að þekking glatist,“ skrifar Magnús.

Fjögur sveitarfélög hafa skilað inn umsögn sinni um frumvarpið - Flóahreppur, Hornafjörður, Vogar og Seltjarnarnesbær.  Öll eru andvíg því að frumvarpið verði samþykkt. „Við eigum að láta hagsmuni og velferð barna og ungmenna njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði,“ segir í umsögn Seltjarnarnesbæjar.