Áratuga samstarf í uppnámi?

04.01.2016 - 20:40
Landamæraeftirlit verður ekki aukið hérlendis nema að áhættugreining ríkislögreglustjóra liggi fyrir. Samkvæmt svari frá innanríkisráðuneytinu verður það skoðað ef greining ríkislögreglu gefur til kynna að slíkt sé æskilegt. Málið sé ekki í skoðun núna en ráðuneytið fylgist vel með gangi mála.

 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur áður sagt að verið sé að skoða hvort landamæraeftirlit verði aukið. Ekki náðist í Ólöfu vegna málsins í dag.

Schengen-samstarfið er í uppnámi eftir að Svíar og Danir tóku upp vegabréfaeftirlit á landamærum sínum, til að stemma stigu við straumi flóttamanna. Mikil óánægja er meðal íbúa við Eyrarsund, sem margir hverjir ferðast á hverjum degi milli landanna vegna vinnu eða skóla.

Þjóðverjar hafa lýst því yfir að Shengen-samstarfið sé í hættu eftir að eftirlit var hert á landamærum Norðurlanda. Óttast er aðgerðirnar hafi „dómínó“-áhrif, og fleiri lönd innan Schengen taki upp sams konar eftirlit.

Svíar, sem hafa tekið við mestum fjölda flóttamanna í Evrópu miðað við höfðatölu, tóku upp nýjar reglur um vegabréfaeftirlit í lestum, rútum og farþegaferjum milli Danmerkur og Svíþjóðar á miðnætti í gær. 34 eftirlitsstöðvum með landamæravörðum hefur verið komið fyrir á leiðinni, og farþegar þurfa að skipta um lest ef þeir ætla að ferðast á milli landanna. Álagið á brautarstöðinni er mest á morgnanna þegar Danir, sem skipta mörgum hundruðum, fara yfir til Svíþjóðar til vinnu. Og síðdegis, þegar Svíarnir, sem skipta þúsundum, halda heimleiðis að loknum vinnudegi í Kaupmannahöfn eða nágrenni. Allir þurfa að sýna gild persónuskilríki með mynd, og Svíþjóðarmegin er líka slíkt eftirlit.

Danir tóku upp hert eftirlit við landamæri Þýskalands á hádegi, og segja að það sé svar við breyttu vegabréfaeftirliti á Norðurlöndunum. Lögregla hefur sett upp vegatálma og stöðvar vegfarendur af handahófi.

Morgan Johansson, ráðherra dóms- og innflytjendamála í Svíþjóðar segir þetta jákvætt. Hann telur að Danir hafi til þessa brotið gegn Schengen sáttmálanum, með því að hleypa flóttamönnum í gegnum landið og óhindrað til Svíþjóðar. Með þessu náist kannski regla á flóttamannavandann. Aðspurður segir hann að flóttamenn muni eflaust sækja um hæli í öðrum Evrópulöndum, fyrst þeir komast ekki til Svíþjóðar. Hann segir ómögulegt fyrir Svíþjóð að halda áfram að taka á móti allt að níu þúsund flóttamönnum á dag.

Áratuga samstarf í hættu

Schengen-samstarfið byggir á samningi fimm landa um að fella niður landamæraeftirlit sín á milli. Samningurinn var undirritaður í bænum Schengen í Lúxemborg árið 1985. Fleiri bættust síðar við og alls eru 25 Evrópuríki í samstarfinu. Ísland hefur tekið þátt frá 2001.

Samstarf Norðurlandanna nær enn lengra aftur í tímann. Þar hefur ekki verið vegabréfaeftirlit síðan á sjötta áratugnum. Allt frá 1954 hafa Norðurlöndin verið eitt vegabréfasvæði með einum ytri landamærum. Þar af leiðandi hafa Íslendingar getað ferðast milli Norðurlandanna án þess að sæta eftirliti. En ekki lengur. Eftir að Svíar tóku upp vegabréfaeftirlit milli Danmerkur og Svíþjóðar þurfa Íslendingar nú að framvísa gildum skilríkjum ef þeir ætla að fara þá leið, helst vegabréfinu sínu.