Árás á heimasíðu Úkraínuforseta

17.05.2017 - 03:35
epa05964137 Ukrainian President Petro Poroshenko speaks during a press conference in Kiev, Ukraine, 14 May 2017. The conference was on European affairs and visa liberalization regulation fror Ukrainian citizens travelling to the European Union countries,
 Mynd: EPA
Opinber vefsíða úkraínska forsetaembættisins var skotmark rússneskra tölvuþrjóta, að sögn stjórnvalda í Kænugarði, sem fullyrða að árás tölvuþrjótanna hafi verið vandlega skipulögð. Í tilkynningu stjórnvalda segir að árásin hafi að öllum líkindum verið svar við tilskipun Porosjenkos, sem kveður á um bann við dreifingu og notkun margra stærstu og vinsælustu rússnesku samfélagsmiðlanna í Úkraínu.

Í frétt breska ríkisútvarpsins af málinu segir að stjórnvöld í Kænugarði hafi ekki lagt fram nein sönnunargögn fyrir aðild Rússa að árásinni, sem leiddi til þess að loka þurfti heimasíðunni um nokkurra klukkustunda skeið í gærkvöld. Síðan er nú aðgengileg á ný og virkar eins og til er ætlast.

Milljónir misstu aðgang sinn að vinsælum netsíðum

Fyrr á þriðjudag tilkynnti Úkraínustjórn að lokað yrði fyrir aðgengi úkraínskra netnotenda að nokkrum afar vinsælum rússneskum samfélagsmiðlum. Þeirra vinsælastur er VKontakte, rússneskur samfélagsmiðill sem svipar mjög til Facebook, en um 15 milljónir Úkraínubúa voru þar á skrá. Odnoklassiki (Bekkjarfélagar) er annar rússneskur samfélagsmiðill sem milljónir úkraínskra netnotenda hafa nýtt sér en fá ekki lengur aðgang að, og sama gildir um rússnesku leitarvélina Yandex og Mail.ru tölvupóstþjóninn, svo það helsta sé nefnt.

Þetta skref Porosjenko-stjórnarinnar hefur verið fordæmt víða sem gróf árás á net-, fjölmiðla- og tjáningarfrelsið í landinu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV