Annars staðar loguðu öll rauð ljós

05.07.2017 - 11:20
„Það eru varla finnanleg dæmi um sambærilega þróun neins staðar í Evrópu. Ástæðan er fyrst og fremst atvinnumálin,“ sagði Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri og fyrrverandi þingmaður, á Morgunvaktinni á Rás 1 um hnignun Vestfjarða og fólksfækkun. Þar búa nú aðeins um 2% landsmanna.

„Ef það væri svona þróun á einhverju landssvæði í Evrópu, þó ekki væri nema brot af þessari þróun, þá væru stjörnvöld í því landi með öll rauð ljós uppi við að reyna að snúa við þróuninni. Það sorglega er að á Íslandi hafa menn verið afskaplega værukærir, jafnvel tillitslausir, og látið þessa hluti ganga. Lítið gert til þess spyrna við fótum.“

Kristinn segir að Vestfirðir hafi verið skildir eftir í félagslegri framþróun í samanburði við önnur landssvæði, ekki síst hvað varðar samgöngur. „Aðgengi að mikilvægum þáttum hefur verið lakara,“ sagði hann á Morgunvaktinni. „Tækifærin eru ekki fyrir vestan. Þau eru tekin í burtu með breytingum í sjávarútvegi, en sérstaklega vegna samdráttar í þorskveiðum. Það sem mátti veiða dróst saman á stuttum tíma um meira en helming og hefur ekki vaxið aftur þrátt fyrir kvótakerfið í 30 ár.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn H. Gunnarsson  -  Facebook
Kristinn H Gunnarsson

Kristinn H. Gunnarsson, sem sat á þingi fyrir Vestfirðinga og síðan Norðvesturkjördæmi frá 1991 til 2009, segir að staða Vestfjarða í stjórnsýslunni hafi veikst, bæði gagnvart framkvæmdavaldinu og á Alþingi. Kjördæmabreytingin í byrjun aldarinnar hafi ekki verið hagfelld Vestfirðingum.

„Síðan hefur verið vaxandi á seinni árum að hver hugsar um sig. Það er eiginlega enginn sem lætur sig varða þann sem verður undir.“

Og gamli vestfirski þingmaðurinn skaut föstum skotum að umhverfisverndarsamtökum, sem með málflutningi sínum hefðu náð að tefja lagningu nýs vegar um Teigsskóg og berðust gegn virkjunum á Vestfjörðum. Kristinn H. Gunnarsson hvatti til meiri samstöðu landsbyggðarfólks. Stjórnmálaflokkarnir hefðu ekki staðið með landsbyggðinni, en sjálfur talar hann af reynslu, sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið, síðan Fransóknarflokkinn og Frjálslynda flokkinn, en endaði utan flokka. Og enn mælir Kristinn H. Gunnarsson fyrir nýrri sókn á Vestfjörðum – þó hann sé utan þings.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi