Annað mansal - vinnustað lokað í öðru máli

22.02.2016 - 20:25
Mynd með færslu
Gísli Davíð Karlsson lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun  Mynd: RÚV
Vinnustaðheimsóknir Vinnumálastofnunar hafa á þessu ári leitt til þessa að stofnunin vísaði einu máli til lögreglu þar sem grunur var um mansal. Það er annað mál en í Vík í Mýrdal. Í öðru tilfelli lokaði stofnunin vinnusvæði og rak 25 starfsmenn á brott.

Grunur um mansal vaknaði í vinnustaðaheimsókn

Mansalsmálið sem varð opinbert í Vík í Mýrdal í síðustu viku hafði komið inn á borð Vinnumálastofnunar fyrir nokkrum mánuðum. Stofnunin sendi það til lögreglu.
„Varðandi svona gróf tilfelli eins og málið í Vík er að þá hefur hingað til ekki komið slíkt mál beint inn á borð hjá okkur.“ segir Gísli Davíð Karlsson lögfræðingur hjá Vinnumálastofnun.
„En það hefur að að minnsta kosti einu sinni á þessu ári vaknað upp sterkur grunur hjá okkur í vinnustaðaheimsókn að það væri ekki allt með felldu og hugsanlegur grunur bara um hreint og beint mansal eða einhvers staðar í þá áttina í gangi. Og við einfaldlega þá þær upplýsingar og slíkt áfram til lögreglunnar og vöktum athygli þeirra á því.“ 
Málið er í skoðun hjá lögreglu en tekið skal fram það er ekki í líkingu við málið í Vík.

Erlendum starfsmönnum fjölgar og fjölgar

Vinnumálastofnun hefur vart undan að skrá nýja erlenda starfsmenn hér á landi. Svokallaðir útsendir starfsmenn frá evrópskum fyrirtækjum hér á síðasta ári voru 341 og mega aðeins starfa hér í skamman tíma. Gísli Davíð segir að þetta sé mikið miðað við árin á undan.  Þessu til viðbótar eru hér um 120 manns á vegum starfsmannaleiga. Þá voru gefin út 1100 atvinnuleyfi á síðasta ári fyrir ríkisborgara utan evrópska efnahagssvæðisins, sem er met síðan lögum var breytt 2008. Árið 2014 voru gefin út 800 til 900 atvinnuleyfi. Mál sem varða borgara utan EES, sem ekki hafa hér atvinnuleyfi, koma reglulega inn á borð stofnunarinnar og hefur málunum fjölgað.  „Og ef við förum inn á byggingasvæði í dag, ég fullyrði það að stundum eru kannski allir nema verkstjórinn útlendingar.“
Gísli segir að einu sinni á þessu ári hafi starfsstöð verið lokað. „Þar sem það var ekki viðeigandi úrbætur á þeim gögnum sem við fengum í ráðningarsamningum og slíkt, það var ekki gert þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir af okkar hálfu. Hvað voru margir starfsmenn? Það voru í kringum 20 til 25 starfsmenn sem við rákum út af vinnustaðnum og ég held að það hafi verið fjórir eða fimm eftir hjá íslenska vinnuveitandanum.“
Það kostar sitt að geta ekki haldið áfram með verk. Fyrirtækið gerði úrbætur og Vinnumálastofnun gaf leyfi til að opna aftur. Gísli segir reynsluna af þessu sýna að úrræðið hafi virkað. 

Keðjuábyrgð lögfest í Frakklandi

Eftir mansalsmálið í Vík í Mýrdal hefur verið rætt um ábyrgð fyrirtækja sem eru með fyrirtæki eða undirverktaka í þjónustu sinni, sem brjóta á starfsmönnum, svonefnda keðjuábyrgð. Í tilskipun Evrópusambandsins frá 2014, sem ekki hefur verið tekin upp hér á landi, er heimild til landa að festa í lög ábyrgð slíkra yfirfyrirtækja. Frakklar hafa nýtt þessa heimild og fest í lög. Þeir kynntu þessa nýjung á ráðstefnu um brot á vinnumarkaði í Hollandi í byrjun febrúar, segir Gísli Davíð. „Meira að segja geta þeir gengið það langt að þeir geta bara lokað öllu vinnusvæðinu ef því er að skipta þannig að yfirverktakinn og aðrir undirverktakar mega ekki starfa á svæðinu af því að undirverktakinn þessi eini er ekki að standa sig í stykkinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Fá tilvik um brot

Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að í vexti eins og nú sé í byggingariðnaði verði hugsanlega undantekningar á því að farið sé að lögum og samningum en þau tilvik séu fá. „Við í sjálfu sé veitum þá ráðgjöf til okkar félagsmanna að þeir séu í öllum tilvikum að fara eftir þeim reglum, bæði kjarasamningum og lögum og reglum sem að um vinnumarkaðinn gilda. Og verðum ekki vör við annað en að það sé vilji til þess. En auðvitað í ástandi eins og er núna að það er kannski vöxtur sem að hefur ekki verið að þá verða einhverjar undantekningar á þessu. Almennt talað þá teljum við að þessi tilvik séu ekki mörg. Samanborið við 12 þúsund manns, sem starfa í byggingariðnaði, þá eru þessi tilvik heldur fá.“