Anna í Grænuhlíð gefin út fyrir nýja kynslóð

27.02.2016 - 16:20
Anna í Grænuhlíð eða Anne of Green Gables er ein vinsælasta barnabók Vesturlanda fyrr og síðar. Bókin kom út 1908 og var bókin fyrsta bók höfundar, Lucy Maud Montgomery.

Í kjölfarið skrifaði Montgomery hátt í tuttugu skáldsögur og fjölda smásagna. Margar þessar sagna sögðu frá Anne Shirley og ástvinum hennar. Allt í allt, átti hún eftir að skrifa átta skáldsögur um Önnu og fjölda smásagna.

Fyrstu þrjár bækurnar um Önnu í Grænuhlíð komu út í íslenskri þýðingu Axels Guðmundssonar 1933–1935, og voru þær endurútgefnar þrisvar á 20. öldinni, síðast 1988–1990 þegar þýðing Axels var aukin og endurskoðuð af Hildi Hermóðsdóttur.

Nú er hins vegar unnið að því að þýða allar bækurnar um Önnu upp á nýtt. 2012 gaf bókaforlagið Ástríki út fyrstu bókina í bókaflokknum, óstytta í nýrri þýðingu Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur. Sigríður vinnur nú að því að þýða allar bækur Montgomery um Önnu Shirley. Árið 2013 kom út Anna í Avonlea, árið 2014 Anna frá eynni og 2015 Anna í Asparblæ.

Sigríður Lára heimsótti bókmenntaþáttinn Orð*um bækur 27. febrúar 2016 og sagði Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá þýðingu sinni á bókunum um Önnu í Grænuhlíð. Þetta viðtal er hér birt óstytt. 

Mynd með færslu
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Orð um bækur
Þessi þáttur er í hlaðvarpi