Aníta: „Andinn kom ekki alveg yfir mig“

„Þetta var ekki alveg nógu gott. Ég held að mig hafi vantað einbeitinguna og svo var ég ekki í nógu góðum fíling. En þetta var aðallega einbeitingin held ég,“ sagði Aníta Hinriksdóttir vonsvikin eftir úrslitin í 800 m hlaupi kvenna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í Amsterdam í Hollandi í kvöld. Aníta kom síðust í mark í úrslitunum og endaði í 8. sæti á tímanum 2:02,55 mín. sem er nokkuð frá hennar besta tíma.

„Ég er alveg ánægð með sætið þannig og það að vera í úrslitum, en maður vill nú vera með í baráttunni og ég var langt frá því í kvöld,“ sagði Aníta þegar RÚV ræddi við hana eftir úrslitahlaupið í kvöld.

Hér má sjá úrslitahlaupið í kvöld.

Aníta hefur oft hlaupið á betri tíma og fannst tíminn sinn í kvöld því ekki nærri eins góður og hún hefði viljað. „Það var eiginlega bara eins og ég hefði hætt. Andinn kom ekki alveg yfir mig í hlaupinu,“ sagði Aníta Hinriksdóttir.

Viðtalið við Anítu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður
EM í fjálsum íþróttum