Andstaða við vínsölu í matvörubúðum eykst

17.02.2016 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Andstaða við sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum hefur aukist á rúmu ári samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. Nú segjast rúm 52 prósent andvíg því að léttvínssala sé leyfð í matvöruverslunum.

Þegar spurt var í árslok 2014 sögðust 39 prósent hlynnt sölu léttvíns í matvöruverslunu en tæp 45 prósent voru andvíg. 

Núna eru tæp 35 prósent hlynnt en rösklega 52 prósent andvíg eða meirihluti þjóðarinnar. 

Andstaðan eykst með hærri aldri og er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Ef viðhorfið er greint út frá afstöðu í pólitík kemur í 
ljós að kjósendur Bjartrar framtíðar eru jákvæðastir gagnvart sölu léttvíns í matvöruverslunum en andstaðan er mest hjá kjósendum Framsóknarflokksins og Vinstri grænna og Samfylkingar. 

Litlar breytingar hafa orðið á viðhorfi fólks til sölu á sterku víni í matvöruverslunum, yfirgnæfandi meirihluti er því andvígur eða rúm 71 prósent svarenda. 

Aukin andstaða við frjálsa léttvínssölu í könnun Maskínu er í takt við sambærilega Gallup Gallup könnun í nóvember síðastliðnum en þá sögðust 47 prósent landsmanna á móti sölu léttvíns og bjór í matvöruverslunum en 41 prósent var hlynnt því. 

Rakel Þorbergsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV