Andað með lungum annarra

09.02.2016 - 17:40
Sigurbjörg Þrastardóttir velti fyrir sér fjölmenningu í pistli sínum í Víðsjá á Rás 1. Hér má hlusta á hann og lesa.

 

„Bókmenntir eru það næsta sem maður kemst því að anda með annarra manna lungum,“ sagði eitt sinn slóvenskur höfundur sem ég þekkti. Hann hét Aleš Debeljak og hann lést í bílslysi í heimalandi sínu, Slóveníu, í síðustu viku, 54 ára að aldri. Aleš Debeljak var öflugur fræðimaður og fyrirlesari, prófessor í menningarfræðum við háskólann í Ljubljana og kom einnig víða við í skrifum sínum; esseyjum, þýðingum og ljóðum. Viðfangsefni hans var gjarnan lífið í ljósi Júgóslavíu og sundrungar hennar, sem hann sagði mikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni, og raunar flestra annarra af sinni kynslóð. Debeljak var giftur bandarískri konu, Ericu Johnson, sem sjálf er þýðandi, og saman bjuggu þau ásamt börnum í hlýlegu húsi í útjaðri Ljubljana.

En ég ætla ekki að rekja feril Aleš Debeljak hér, heldur rifja upp hvað hann sagði þegar ég hitti hann fyrst, á ráðstefnu í Finnlandi árið 2003. Viðfangsefni ráðstefnunnar var sambúð stórra og lítilla tungumála, og daginn sem Aleš Debeljak tók til máls var yfirskriftin Fjölmenningarleg Evrópa: Þjóðarbókmenntir endurskoðaðar. Slóvenar, rétt eins og Íslendingar, tala mál sem telst lítið á evrópska vísu, þar búa 2 milljónir, en einnig tóku þátt í ráðstefnunni velskir, katalónskir, flæmskir höfundar og fræðimenn, svo eitthvað sé nefnt, en líka enskir, því viðfangsefnið var jú lítil – og stór – mál.

Erindreki alþjóðabókmennta frá Arts Council á Englandi sagði frá því í framsögu að hlutfall þýddra bókmennta á enskum markaði væri einungis innan við 5%, á meðan sama hlutfall væri til dæmis 40% á Spáni og í Hollandi, og væri þetta mjög miður. (Athugið að þetta var árið 2003, þannig að tölur gætu hafa breyst, en tilhneigingin kannski ekki.) „Hinum enskumælandi finnst þeir hafa alveg næga innsýn í bókmenntir heimsins, enda eru bækur skrifaðar á ensku í öllum heimsálfum, s.s. í Kanada, Ástralíu, S-Afríku, Indlandi, Bretlandi, Nígeríu, Bandaríkjunum og víðar. Þeir sjá ekki endilega þörf á því að bæta við þetta, með tilheyrandi þýðingakostnaði. Og sumir útgefendur gefa fáránlegustu skýringar, eins og: Hvers vegna ætti ég að gefa út höfund með skrýtnu nafni? – og gleyma því að Hanif Kureishi er til dæmis alls ekkert venjulegt nafn,“ sagði erindrekinn, en ástæða þess að ég get haft þetta eftir orðrétt, er að ég skrifaði greinar um ráðstefnuna í Morgunblaðið, þar sem ég starfaði á þessum tíma. Þá var reyndar lítið farið að fjalla um fjölmenningu og sambúð ólíkra tungumála hér á landi, en á þeim þrettán árum sem liðin eru er þetta orðið eitt viðamesta viðfangsefni í samræðum daganna. Auk þess var það til skamms tíma þannig að maður upplifði íslenskuna almennt sem lítið mál í sambúð við önnur evrópsk, en núna búa á Íslandi ýmsir misstórir hópar sem eiga önnur móðurmál, og í því samhengi er íslenskan í raun stóra málið.

Manneskjur með öll sín vandamál

En áfram með upprifjun af menningarráðstefnunni í Finnlandi árið 2003. Bókmenntafulltrúi Goethe Institut lýsti þróun innflytjendamenningar í Þýskalandi í kjöfar seinna stríðs, en þá kom þangað fjöldi svonefndra gestaverkamanna, Gastarbeiter. „Þeir áttu bara að vinna og fara svo aftur heim,“ sagði fulltrúinn. „En margir þeirra settust auðvitað að. Eins og gárungarnir orðuðu það: Við pöntuðum vinnuafl en fengum manneskjur með öll sín vandamál.“ Hann sagði að margt væri gert til þess að auðvelda samlögun innfæddra og aðfluttra. „En það er almenn staðreynd,“ bætti hann við, „að innflytjendur samsama sig ekki menningu í nýja landinu, jafnvel ekki í tvær, þrjár kynslóðir. Þeir tilheyra heldur ekki gamla menningarheiminum sem þeir yfirgáfu. Úr því kemur eins konar samklippt heimsmynd, svo notað sé hugtak Levi-Strauss (e. recollage), sem er veruleiki í sjálfri sér. Og framlag listamanna með slíkan bakgrunn er vissulega auðgandi fyrir okkar menningu og í sumum tilfellum eru verk þeirra þegar komin inn í námsskrá skólanna.“

Annar þátttakandi í ráðstefnunni, sá velski, kaus að nota hugtakið mósaík til þess að lýsa sambúð menningarhópa, frekar en hið margþvælda „menningarlegur suðupottur“, því hóparnir blönduðust ekki endilega, heldur mynduðu mörg ólík púsl heildarmyndina. En hann undirstrikaði að sá þáttur sem hvað sterkast skilgreindi sjálfsmynd hvers og eins væri tungumálið sem það talaði eða skrifaði á.

Réttu orðin

Á ráðstefnunni kom þannig fram viss tilraun til að færa fókusinn frá fjölmenningu (e. multiculturalism) yfir á margtyngi (e. multilingualism), og meðal þeirra sem þar tóku undir var fyrrnefndur Aleš Debeljak, skáld og prófessor í menningarfræðum við Ljubljana-háskóla. Hann gekk eiginlega svo langt að hafna hugtakinu fjölmenning, því hún bæri í sér ákveðinn hroka. „Menn hreykja sér af því að vera víðsýnir og leyfa „hinum“ að vera með, en það lýsir ekki einungis óþolandi forræðishyggju heldur líka því sem ég vil kalla nýfrjálslynda nærsýni. Árangurinn er einungis sá að ólíkir hópar búa hlið við hlið en ekki saman.“ Og hann bætti við: „Við verðum að geta sett okkur í annarra spor, aðeins þannig öðlumst við raunverulega víðsýni, og til þess eru bókmenntirnar eitt öflugasta tækið,“ Sumsé, bókmenntir eru það næsta sem maður kemst því að anda með annarra manna lungum.

Debeljak benti ennfremur á að ein stefna, ein tilhneiging sem sameinar alla, geti aldrei gengið upp enda búi hver hópur og í raun hver einstaklingur að menningarlegri mótun. Í staðinn væri nytsamlegra að nota heimsborgarann sem útgangspunkt í hugmyndafræði samtímans. Slíkt viðhorf, e. cosmopolitarianism, grundvallast á því að hver einstaklingur sé afsprengi sinna menningarlegu róta en hafi um leið innsýn og skilning á öðrum samfélögum. „Því ef menn viðurkenna ekki mismuninn,“ sagði Debeljak heitinn í Finnlandi árið 2003, „ef þeir játast ekki uppruna sínum og taka ábyrgð á sögulegum bakgrunni, þá er á fáu að byggja. (…) Eins ágætt og fjölmenningarviðhorfið getur virst, verðum við að muna að hægt er að hafa svo opinn huga að hætta er á því að heilinn velti út.“ Þetta síðasta sagði hann við undrun sumra en fögnuð annarra, og það var hressandi.

Aleš Debeljak sagði auðvitað margt fleira á ríkum ferli, en þessi punktur, um að skilja aðra í gegnum bókmenntir – sem þýðir auðvitað að þýðingar á og af stórum og litlum málum séu þjóðþrifamál og þangað skuli beina fjármagni og kröftum – og hinn punkturinn, um nauðsyn þess að viðurkenna ólíkan bakgrunn, eru stef sem ekki er úr vegi að rifja upp – nú þegar við erum orðin öðruvísi aðilar að fjölþjóðleikanum en áður.

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi