Amazon fjölgar í starfsliðinu um 100 þúsund

13.01.2017 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  PAP
Netverslunarrisinn Amazon áformar að fjölga um hundrað þúsund manns í starfsliði sínu í Bandaríkjunum næsta eina og hálfa árið. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að margháttuð störf verði í boði. Fyrirtækið þurfi að bæta við sig verkfræðingum, forriturum, nemum í starfsþjálfun, starfsfólki í vörugeymslum og allt þar á milli.

Amazon fjárfestir um þessar mundir í vörugeymslum víðs vegar um Bandaríkin til þess að geta sent viðskiptavinum sínum vörur enn hraðar og ódýrar en hingað til. Til stendur að fjölga um sextán vörumiðstöðvar fyrirtækisins á næstu misserum. Þegar breytingar á rekstrinum hafa gengið í gegn vinna yfir 280 þúsund manns hjá Amazon.

Donald Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna að viku liðinni, hefur þrýst mjög á um að störfum fjölgi í landinu. Hann hefur hótað að refsa fyrirtækjum sem fara með starfsemi sína til landa þar sem vinnuafl er ódýrara en í Bandaríkjunum. Trump og Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, áttu í deilum í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember. Hann var meðal forstjóra fyrirtækja í tæknigeiranum sem áttu fund með Trump í New York í síðasta mánuði.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV