Alþjóðlegi snjódagurinn í dag

17.01.2016 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Alþjóðlegi snjódagurinn er í dag. Í Tungudal á Ísafirði mátti litlu muna að ekki næðist að opna skíðasvæðið fyrir alþjóðadaginn vegna snjóleysis. Starfsmenn hafa rutt til fleiri þúsundum rúmmetrum af snjó til að geta opnað svæðið um mánuði seinna en vanalegt er.

Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum voru orðnir óþreyjufullir eftir því að skíðasvæðið í Tungudal yrði opnað og hafa starfsmenn á skíðasvæðinu átt fullt í fangi með að útbúa brekkurnar til skíðaiðkunar úr þeim litla snjó sem hefur fallið á Vestfjörðum í vetur. Að lokum tókst að opna, rétt fyrir alþjóðlega snjódaginn. 

Gautur Ívar Halldórsson, forstöðumaður skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar, segir svæðið opna óvenjulega seint. „Já, þetta er einum og hálfum mánuði seinna en við gerðum ráð fyrir og mánuði seinna en venjulegt þykir.“

Þunnt lag af snjó sé í brekkunum. „En það er hægt að skíða þær og við erum búnir að vinna markvisst að því að móta þær og búa til og ýta fleiri þúsund rúmmetrum af snjó til að búa þetta til,“ segir Gautur. 

Í tilefni af alþjóðlega snjódeginum bjóða skíðasvæðin á landinu upp á fjölbreytta dagskrá með skíðakennslu, leikjum og fleiru fyrir fjölskylduna. Víða er frítt í lyfturnar og boðið upp á heitt kakó. Skíðasvæðið í Tungudal er þar engin undantekning á og fagnar forstöðumaðurinn því að tekist hafi að opna. „Það er eiginlega mjög mikil heppni, verð ég að segja. Eiginlega lán í óláni þótt seint sé.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV