Alþingi hafi þegar veitt heimildir

16.01.2016 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafnar gagnrýni Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, þess efnis að Bjarni hafi farið erindisleysu á stofnfund Innviðafjárfestingabanka Asíu í Peking um helgina.

 

Í mars í fyrra ákvað ríkisstjórnin að Ísland sæktist eftir því að vera á meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Var það gert að tillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins segir að bankinn sé fjölþjóðlegur þróunarbanki sem muni styðja við aðgerðir til að efla innviði Asíu. Aðild Íslands að bankanum geti þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf. Heildarskuldbinding Íslands nemur 2,3 milljörðum króna.

Frosti telur að Alþingi hafi ekki staðfest samþykktir bankans og án þess verði Ísland ekki aðili að honum. Þá sé ólíklegt að fjárfesting ríkissjóðs í bankanum skili íslenskum skattgreiðendum nokkru.

Bjarni svaraði þessari gagnrýni á Facebook síðu sinni í dag. Þar segir hann að Alþingi hafi þegar veitt heimild til þessara skuldbindinga í fjáraukalögum fyrir síðasta ár. Aðeins fimmtungur þeirrar skuldbindingar komi til greiðslu í fimm jöfnum hlutum á fimm árum. Þar af hafi hlutur þessa árs þegar verið greiddur í samræmi við heimild sem Alþingi veitti í fjárlögum fyrir þetta ár. Formleg fullgilding Íslands bíði afgreiðslu hefðbundinnar þingsályktunartillögu.

 

Vegna frétta um aðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu vil ég árétta þetta: Í dag er formlegur...

Posted by Bjarni Benediktsson on 16. janúar 2016

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV