Álskipið fer með 3 þúsund tonn af áli

04.03.2016 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Álflutningsskipið sem legið hefur við bryggju í Straumsvík síðustu daga heldur úr höfn síðdegis áleiðis til Hollands.

Þrjú þúsund tonn um borð

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði á þriðjudagskvöld að fimmtán stjórnendur álversins mættu vinna við útskipun. Þeir náðu að skipa um þrjú þúsund  tonnum af áli um borð í gær.  Ólafur Teitur Guðnason talsmaður Rio Tinto Alcan á Íslandi segir að það sé drjúgur hluti þessi sem lesta átti, en aðrir starfsmenn hafi í morgun unnið að því að fylla skipið af annari vöru og gámum. Lestun gekk snurðu- og átakalaust fyrir sig.

Enginn sáttafundur boðaður

Kolbeinn Gunnarsson formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar segir að enginn sáttafundur hafi verið boðaður í vinnudeilu starfsmanna og Rio Tinto. Það sé ríkisssáttasemjara að hafa frumkvæði að því. Síðasti sáttafundur síðastliðinn mánudag var árangurslaus. Kolbeinn segir félagið vera að skoða hvort leitað verði liðsinnnis erlendra verkalýðsfélaga þannig að uppskipun verði stöðvuð ytra.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV