Alsír: 12 fórust í þyrluslysi

28.03.2016 - 02:43
Mynd með færslu
Þyrla af gerðinni MIL MI171, sömu gerðar og fórst í Alsír.  Mynd: F. Vidinovski  -  Wikipedia
Tólf alsírskir hermenn fórust í þyrluslysi á páskadag, samkvæmt tilkynningu frá alsírska varnarmálaráðuneytinu. Þyrlan var í könnunarleiðangri í suðvesturhluta landsins þegar hún hrapaði til jarðar. Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins en gengið er út frá bilun í tæknibúnaði þyrlunnar. Enginn grunur leikur á um að það hafi orðið af mannavöldum.

Þyrlan er rússnesk, af gerðinni MIL MI171. Þetta er fjórða mannskæða flugslysið sem tengist flugher Alsírs á síðustu fjórum árum. Tvær herþotur rákust saman á flugæfingu í desember 2012 og létust báðir flugmenn. Í október 2014 létust tveir menn þegar herflugvél hrapaði á æfingu og í febrúar sama ár fórust 77 þegar herflugvél hrapaði í austurhluta landsins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV