Alsæisaugað

23.03.2016 - 13:17
Við erum ánetjuð, föst í netinu, Internetinu, erum flugur í vef alheimskóngulóarinnar sem veiðir okkur í hagnaðarskyni, fylgist með hverju skrefi okkar, veit nánast allt um okkur og nýtir sér upplýsingarnar á ýmsan máta. Augað sem allt sér – alsæisaugað - fylgist með okkur.

 

Ég er mikið á netinu, allan daginn, liggur við, oftar en ekki vegna vinnu minnar, sosum þegar ég er að þýða eitthvað eða setja saman pistil sem þennan. Og er bara hreint handarlaus ef ég hef ekki aðgang að þeim ríflega 50 slóðum inná alskonar orðasöfn og tungutól sem ég hef safnað og fest í minni vafrans míns. Og sé heimsókn á netið ekki vinnutengd er ég að þvælast inná fésbók mörgum sinnum á dag, þetta orðið vani ef ekki hrein og bein fíkn, og geri það ýmist gegnum borðtölvu, fartölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Því að maður er auðvitað ekki eintóla í þessum efnum, ekki einu sinni tvítóla heldur margtóla. Dæmigerður nútímamaður, gæti maður sagt. Og veit auðvitað að það er fylgst með manni af eftirlits- og njósnavélum í vefheimum þótt maður láti sér það í léttu rúmi liggja. En ætti auðvitað ekki að gera það. Við stjáklum viljandi um, ef svo mætti segja, á nærhaldinu, ef ekki allsber, á vefnum og viðrum margt sem best væri geymt í skúmaskotum. Fórnum ýmsikonar persónufrelsi og persónuupplýsingum fyrir það frelsi og þau þægindi sem netið veitir óneitanlega. Og í raun afar erfitt að lifa án þess núorðið. Heimurinn hættir að snúast ef tölvur og vefir hrynja.

Á dögunum fór ég að leita að flugfari, einsog svo margir. Fór inná ýmsar flug- og ferðaleitarvélar og fann far sem ég festi kaup á gegnum netið og greiddi fyrir með greiðslukorti. Einsog milljónir manna gera nú um heim allan. Daginn eftir þegar ég fór á netið, m.a. til að glugga í innlend og erlend dagblöð, birtist í sífellu og gerir enn auglýsing frá erlendri vefferðaskrifstofu sem bauð mér girnileg fargjöld milli Íslands og þeirra staða sem ég hafði verið að skoða þarna um daginn. Semsagt, þetta brölt mitt fór ekki framhjá þessu alsæisauga sem netið er. Við skiljum þar daglega eftir okkur stöðuga slóð sem hægt er að rekja, og rakin er af ýmiskonar tölvum og tólum sem hnýstast í, álykta og skrá hver við séum, hverjum við tengjumst og hvernig, hvert við förum, hvað við hugsum, hverju við trúum eða trúum ekki, hver smekkur okkar sé, hvað við kjósum og veljum, hverja við elskum eða hötum, hverjar ástríður okkar séu, og oftar en ekki okkar innstu hugsanir, hneigðir og langanir, jafnvel þær sem við viljum sem minnst flíka. Um allan heim eru tól sem stunda slíkt fjöldaeftirlit og hafa vakandi auga með okkur, eru alsæisaugu. Og hér ekki langt í 1984 Orwells, í raun er eftirlitsheimurinn orðinn meiri en breski rithöfundurinn sá fyrir í skáldsögu sinni. Alstaðar fylgist einhver með okkur gegnum hin stafrænu skráargöt.

Hverskonar daglegir vanaverknaðir eru undir smásjánni. Hvort sem það er að setja ljósmynd á fésið, svara tísti á tvitter, aka í vinnuna, panta borð á veitingastað með appi, senda væntanlegum borðnautum skeyti um matverðinn, hringja í einhvern. GPS-staðsetningartæki í snjallsímum negla niður hvar maður er staddur hverju sinni. Við náum okkur í ýmiskonar „ókeypis“ öpp og veitum þeim aðgang að vina- eða símalistum. Smá líkamsrækt áður en haldið er til vinnu getur leyft nettengda armbandinu að senda snjallsímanum upplýsingar um skrefafjölda, hjartlátt og hita húðarinnar, sem síðan er vistað í öðru tæki einhverstaðar í heiminum, og af því dregnar ályktanir um heilsu okkar og stand.

Risarnir sem drottna yfir sýndarheimum vefjar hafa allar klær úti. Facebook, Apple, Twitter og Google velta milljörðum bandaríkjadala árlega. Þau birta smáaleturssamninga á tyrfnu lagakrókamáli sem við hökum hugsunarlaust við þegar við skráum okkur hjá þeim og veitum þeim aðgang að upplýsingum um okkur um leið. Þessi fyrirtæki segjast að vísu ekki selja þriðju aðilum persónulegar upplýsingar um notendur sína en það er kannski ekki að fullu rétt. Þau láta t.a.m. auglýsendur fá upplýsingar um skilvirkni auglýsinga þeirra á viðkomandi vef þótt þau persónugeri þær ekki. En þetta er ekki svona einfalt. Allar athafnir okkar á vefnum gefa til kynna miklu meira um okkur en við gerum okkur grein fyrir, eða nennum að hugsa útí. Einkalífið er okkur ekki nógu heilagt ef svo má að orði komast, við gefum aðgang að því, og sérstaklega þegar eitthvað er opinberlega ókeypis á vefnum, einsog fjölmörg öpp. Þótt við greiðum ekki fé er borgað fyrir með ýmiskonar aðgangi að einkalífinu. Persónuupplýsingar um okkur jafngilda peningum fyrir þessi fyrirtæki.

Svonefnd lýsigögn eru gögn um gögn, nefnd metadata á ensku. Þetta eru semsagt gögn eða upplýsingar sem lýsa eiginleikum og gildi annarra gagna, t.a.m. um uppruna, aldur, innihald eða staðsetningu. Spjaldskrá bókasafns er einföld gerð lýsigagna. Leitarvélar á vefnum geta t.a.m. notað lýsigögn til að finna síður. Og úr þeim má ýmislegt lesa.

Rannsakendur við Stanford-háskóla í Kaliforníu tóku sig til fyrir fáeinum árum og söfnuðu í nokkra mánuði öllum lýsigögnum úr snjallsímum 500 sjálfboðaliða. Vísindamennirnir höfðu hannað app í símana sem áframsendi þeim flæði upplýsinga úr þeim. Og þeir urðu í raun klumsa yfir öllu því sem þeir komust að um símnotendur. Einn þeirra var í sambandi við hóp fólks með taugaskaða og við síma hjá lyfjafyrirtæki sérhæfðu í lyfjum við MS-sjúkdómnum eða mýliskaða. Annar hringdi oft í mann sem seldi hálfsjálfvirk skotvopn. Lýsigögn frá ennöðrum símnotanda leiddu í ljós að hann var í sambandi við apótek, lyfjafyrirtæki og læknastofu sem sérhæfð var í óreglulegum hjartslætti. Símnotkun annars benti til þess að hann ræktaði maríúana, m.a. hringingar í verslun sem seldi fræ og búnað til þess. Kona nokkur talaði lengi við systur sína en hringdi svo tveimur dögum síðan nokkur símtöl í fjölskylduráðgjafarmiðstöð. Tveimur vikum síðar hringdi hún þangað aftur og loks mánuði seinna enn á ný. Slíkt þótti benda til þess að hún hefði farið í fóstureyðingu.

The New York Times birti fyrir fjórum árum grein í svipuðum dúr. Maður nokkur í Bandaríkjunum mætti á skrifstofurnar hjá verslanakeðjunni Target, í útibúi hennar í Minneapolis, til að kvarta yfir því að fyrirtækið væri farið að senda dóttur hans á unglingsaldri auglýsingar og afsláttarmiða fyrir konur sem áttu von á sér. Blessaður maðurinn vissi ekki að stúlkan væri ólétt þótt Target hefði dregið þá ályktun rétt. Tölfræðingur að nafni Andrew Pole vann hjá fyrirtækinu. Þegar hann var nýbyrjaður fengu tveir úr markaðssetningardeildinni hann til þess að hanna tölfræðiaðferð svo að hægt að fylgjast með innkaupaháttum kvenna í búðinni, í þeim tilgangi að finna út, á undan öðrum verlsanakeðjum, að viðkomandi gengi með barn og byrja að senda henni auglýsingar tengdu því. Sölumennirnir sögðu tölfræðingnum að tímasetningin væri grundvallaratrið, að vera á undan öðrum. Oftast fær fólk flóð tilboða eftir barnsburð enda fæðingarskár opinberar. Markaðsmennirnir sögðust vilja senda konum sérhannaðar auglýsingar frá með fjórða mánuði á meðgöngu enda væri það þá sem tilvonandi mæður byrjuðu að kaupa allskonar nýja hluti, einsog meðgönguvítamín eða óléttuföt.

Target og flestar aðrar verslanakeðjur vestanhafs safna öllum þeim upplýsingum sem þær geta um viðskiptavinina, sagði The New York Times, t.a.m. með því að skapa sérstaka kennitölu viðskiptavinar þar sem skárist allt sem hann kaupir. Ef notað er greiðslukort eða afsláttarmiði, ef viðskiptavinur fyllir út könnun, sendir tölvupóst um endurgreiðslu, hringir í þjónustusíma, opnar tölvubréf sem verslanakeðjan hefur sent, þá skráist það allt á kennitöluna. Og fyrirtækið reynir síðan að komast að sem flestu um viðkomandi: búsetu, aldur, kynþátt, fjölskylduhætti, tekjur og þar frameftir götunum.

Alstaðar skiljum við eftir stafræn spor, og einkum í sýndarheimum vefjar, þar sem ýmsir rekja þau og vaða á skítugum skónum alveg inná gafl hjá okkur. 

 

Mynd með færslu
Magnús Ragnar Einarsson
dagskrárgerðarmaður