Allt tilbúið fyrir kosningarnar í Grímsey

Mynd með færslu
Í Grímsey er nyrsta kjördeild landsins og þar hefur sami maður stýrt kosningum í rúm 40 ár. Hann á von á dræmri kjörsókn á morgun því eyjaskeggjar séu margir farnir í frí.

Grímsey er hluti af Akureyrarkaupstað og þar er því starfandi undirkjörstjórn. Og Bjarni Magnússon, formaður hennar, er enginn nýgræðingur. Hann varð hreppstjóri í Grímsey árið 1969 og fór fljótlega upp úr því að stýra kosningum og gerir enn. Kjörkassinn og tilheyrandi gögn eru komin til Grímseyjar og allt að verða klárt fyrir morgundaginn.

„Já, já, þetta er allt að verða klárt. Og eins og gengur þá held ég fund áður með kjörnefndinni og ræði málin og fyrirkomulagið á þessu og undirbý þetta svolítið kvöldið áður,“ segir Bjarni.

En hann á ekki von á góðri kjörsókn á morgun. Mikil hreyfing sé komin á Grímseyinga á þessum tíma, grásleppuvertíðin búin og lítill kvóti eftir og því margir farnir í frí. En utankjöfundar aðstaðan er borðstofan hjá Bjarna og þar kusu margir áður en þeir fóru. Eftir sameiningu við Akureyri geta þeir líka kosið á Akureyri.

En Grímseyingar eru jafnan fljótir að kjósa svo kjörkassinn komist í flug til Akureyrar. Og Bjarni veit alltaf hverjir eru ókomnir á kjörstað. „Já, já, ég veit það alltaf. Og við hringjum þá í þá og þeir segja annað hvort að þeir ætli ekkert að koma eða komi bara rétt bráðum.“