Allt hefur breyst, ekkert hefur breyst

Gagnrýni
 · 
Mánar
 · 
Nú er öldin önnur
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Allt hefur breyst, ekkert hefur breyst

Gagnrýni
 · 
Mánar
 · 
Nú er öldin önnur
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
07.04.2017 - 11:25.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Ein af mektarplötum íslenska hipparokksins er samnefnd plata hinna selfyssku Mána sem út kom árið 1971. Þeir sneru aftur með nýja breiðskífu á síðasta ári – heilum 45 árum eftir að frumburðurinn kom út. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég viðurkenni það fúslega að ég verð pínu smeykur þegar ég fæ svona verk upp í hendurnar. Þrátt fyrir góðar og göfugar meiningar eiga plötur sem þessar til að enda úti í skurði, framkvæmdin iðulega einlæg en útkoman oft brösótt. Menn komnir af léttasta skeiði og hreinlega úr takti, tónlistar- sem samfélagslega. Mér létti því þegar ég heyrði fyrstu tónanna hér. Ekkert af þessu á við um þessa endurkomuplötu Mána sem ber titilinn Nú er öldin önnur. Já, nú er ný og önnur öld, nálega hálf öld frá síðasta verki en glettilega lítið hefur breyst.

Krúnudjásn

Breiðskífa Mána frá 1971 er ein af krúnudjásnum íslenska rokksins frá því í upphafi áttunda áratugarins. Hljómsveitir íslenskar voru að færa sig yfir í þyngri og framsæknari tónlist og þessi plata sveitarinnar spratt eiginlega altygjuð út úr höfði Seifs. Hljómsveitin var frá Selfossi en stóð fyllilega upp í hárinu á Reykjavíkur- og Keflavíkursveitunum. Það er einhver tímalaus galdur sem leikur um plötuna, umslagið er t.a.m. sláandi, lagatitlar eins og „Söngur Satans“ segja sitt og innihaldið þungt og framsækið rokk sem einkennist af framúrskarandi hljóðfæraleik og sumpart næfum textum sem voru móðins á þeim tíma. Meðlimir voru rétt skriðnir yfir tvítugt og spyrja einlæglega í upphafi plötu „Af hverju er lífið allt svo undarlegt?“

Spólum 45 ár fram í tímann. Fyrsta lagið á nýju plötunni er samnefnt henni og hefst með kröftugum rafgítar, orgelleik að sama skapi og fljótlega er því lýst yfir að „ekki breytist hagur, hins hrjáða verkamanns“. „Villi verkamaður“, sem við hittum á fyrstu plötunni, er hér ljóslifandi og er í nákvæmlega sömu stöðu og áður. Söngurinn er einlægur bæði og ástríðufullur og menn leyfa röddinni meira að segja að brotna undir restina, einhverjir hefðu sungið partinn aftur en hann fær að standa. Og er því máttugri fyrir vikið. Þvílíkt upphafslag! Tilgangurinn er skýr, Mánar halda áfram eins og platan hafi verið gerð ári eftir fyrstu plötuna, aðferðafræði sem virkar. Mýktin sem aldri oft fylgir, og ég óttaðist í upphafi, fær a.m.k ekki að leika um hljóðrásirnar hér.

Vottur

Áfram er spilað inn í þennan anda sem ég hef lýst en Mánar ávarpa þó um leið þá staðreynd að það hyllir undir ævikvöldið. „Ástarþrá“ er nákvæmlega það, „Ellismellur“ sprellkenndur óður til þeirrar stöðu sem menn á sjötugsaldri finna sig oft í. „Flóttabörn“ fjallar um hörmungar heimsins og hefði vel getað tyllt sér á margumræddan frumburð. Þessi plata er nefnilega merkilegur vottur um það að svo lítið hefur áunnist á mörgum sviðum frá því að meðlimir voru bláeygðir hippar. „Lækurinn“ er ósungið lag þar sem sjálfur Ian Anderson leggur til flautuleik og plötunni er slauffað með „Móðir jörð“, lag sem á við í dag sem þá.

Mánar glotta við tönn á Nú er öldin önnur, tvær breiðskífur á fimmtíu árum og allt hefur breyst – og ekkert hefur breyst.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Mánar - Nú er öldin önnur

Tónlist

Bylmingsslagarar í reffilegri Reykjavík

Tónlist

Þessi tyggjótík er vel töff!

Tónlist

Gamlir nýbylgjuhundar gelta af krafti