Allt að 74 prósenta hækkun

06.01.2016 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn  -  RÚV
Einstakir liðir í gjaldskrá tónskólans í Fjallabyggð hækkuðu um fimmtán til 74 prósent um áramót. Mesta hækkunin er á framhaldsstigi söngnáms sem kostar eftir hækkun jafn mikið og söngnám í Dalvíkurbyggð. Fjármálastjóri sveitarfélagsins segir að svona mikil hækkun líti illa út en staðreyndin sé að gjaldskráin hafi ekki hækkað að ráði frá 2012 og mikill munur á verðlagningu í Fjallabyggð og annars staðar.

 

Minnst var hækkunin í tónlistarnámi barna þar sem hún nam fimmtán prósentum. Gjaldið hækkaði úr 52.800 krónum í 60.720 fyrir fullt nám og úr 36.300 krónum í 41.745 krónur fyrir hálft nám. Tónlistarnám fullorðinna hækkaði öllu meira í verði, um rúm 40 prósent. Fullt nám fór úr 63.800 krónum í 90.850 og hálft nám hækkaði úr 45.500 krónum í 64.050 krónur. Mest var hækkunin þegar kom að framhaldsstigi í söngnámi, 74,4 prósent. Gjaldið hækkaði úr 78.100 krónum í 136.207 krónur. Það er sama gjald og Dalvíkurbyggð rukkar. Sveitarfélögin eru í samstarfi um nokkra þætti tónskólastarfsins.

Gjaldskráin lægri en annars staðar

Ólafur Þór Ólafsson, fjármálastjóri Fjallabyggðar, segir að það líti vissulega illa út þegar verðskrá hækkar þetta mikið í einu stökki. Raunin sé þó sú að gjaldskrá hafi ekkert hækkað að ráði síðustu árin og gjaldskráin því allt önnur og lægri en í öðrum sveitarfélögum. Þessu hafi menn staðið frammi fyrir þegar þeir hækkuðu verðið á tónlistarnáminu. Að því er fram kemur á vef Fjallabyggðar er gjaldskráin þó áfram frekar lág miðað við aðra tónskóla.

Misdýrt tónlistarnám

Samanburður á gjaldskrám tónskóla getur verið erfiður. Ef aðeins er litið til gjaldskrár tónskóla í Eyjafirði en ekki inntaks er staðan þessi. Fullt nám barna í Dalvíkurbyggð kostar 69.850 krónur og hálft nám 46.750, nokkuð hærra en í Fjallabyggð. Framhaldsnámið kostar 136.207 krónur. Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa haft samstarf um rekstur tónskólanna og hafa verið uppi hugmyndir um að sameina tónlistarnámið jafnvel í eina stofnun.

Fullt nám barna í Eyjafjarðarsveit kostar 59.690 krónur og hálft nám 35.814. Á Akureyri kostar grunnstig í tónlistarnámi 94.736 krónur og hálft grunnstig 70 þúsund. Framhaldsstig í söngnámi kostar 232.009 í fullu námi og hálft nám 162.294. Til samanburðar má nefna að í Hafnarfirði kostar framhaldsstig í söngnámi 143 þúsund en 107 þúsund sé samsöng og undirspili sleppt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV