Allir á hlaupum að leita lausnar

12.09.2017 - 11:36
Nichole Leigh Mosty vonast enn til að farsæl lausn finnist á máli stúlknanna Haniye og Mary. En styður hún tillögu um að þeim verði veittur ríkisborgararéttur ásamt fjölskyldum þeirra? „Ef ég finn ekki aðra leið.“ Nichole segir erfitt að taka tvö mál fram fyrir öll önnur sem bíða afgreiðslu. „Ég veit að það eru fleiri, sem eru jafnvel verr sett, hafa fengið synjun en þyrftu líka svona meðferð. Ég hef eins og allir aðrir þingmenn verið á hlaupum að reyna að finna lausn.“

Nichole Leigh Mosty sagðist á Morgunvaktinni leggja áherslu á að fundin yrði lausn sem gildi fyrir alla í sömu stöðu. Hún boðar frumvarp um að meðferðartími umsókna um landvist verði styttur, sérstaklega í tilvikum barna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Fari málsmeðferðartími yfir sex mánuði skuli þeim veitt vernd. Þá verði veitt heimild til að taka sérstakt tillit aðstæðna barna af mannúðarástæðum. „Mér finnst mikilvægt að lögin taki gildi strax – og gildi um alla sem lagt hafa inn umsókn - eða hafa fengið úrskurð sem ekki hefur verið framfylgt.“

„Nú er sætið er heitt“

Nái þessi tillaga fram að ganga yrði tryggt að Haniye og Mary fengju að búa hér áfram, eins og aðrir í þeirra stöðu. En ljóst er að setja verður lög. Stofnanir breyta ekki úrskurðum sínum. Nichole segir mikilvægt að hafa í huga að margir aðrir séu í sömu stöðu og stúlkurnar tvær sem vakið hafi athygli. Mál margra fari ekki hátt, séu rekin í hljóði.  Setja þurfi saman þverpólitíska nefnd til að fara yfir gildandi lög og tryggja betur réttindi barna. En er Nichole Leigh Mosty sátt við framgöngu Sigríðar Ásthildar Andersen, dómsmálaráðherra, í máli stúlknanna tveggja? „Nú er sætið heitt,“ sagði Nichole á Morgunvaktinni, en bætti svo við:

„Ég hefði viljað sjá hana tjá sig með öðrum hætti og að hún hefði kannski verið tilbúnari að vinna með okkur.“

Nichole segist bera virðingu fyrir dómsmálaráðherra – en í hennar stöðu hefði hún haldið öðru vísi á þessu máli.

Nichole Leigh Mosty vann sem sjálfboðaliði hjá SOS-barnaþorpum á Grikklandi í sumar og aðstoðaði börn sem eru langt að heiman á flótta. Á Morgunvaktinni lýsti hún erfiðelikum þessara barna en líka lífsvilja þeirra og krafti. Og hún bar hlustendum skilaboð frá dreng sem hún kynntist í Grikklandi, sem sagði: „Við skiptum máli.“ Já, flóttabörnin skipta máli og vilja leggja heiminum sitt af mörkum.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi