Aleppo: Hundruð þúsunda gætu lokast inni

10.02.2016 - 06:17
epa05151281 Syrian refugees wait to return to Syria near Oncupinar Border gate in Kilis, Turkey, 09 February 2016. The Turkish government has so far kept the border closed to the more than 30,000 people stranded in northern Aleppo province after
Fjöldi fólks flýr frá Aleppo til Tyrklands á degi hverjum, auk þess sem stór hluti nauðsynja á borð við mat og lyf berst til borgarinnar þá leiðina.  Mynd: EPA
Hætta er talin á að allt að 300.000 íbúar sýrlensku borgarinnar Aleppo einangrist algjörlega frá umheiminum á næstu dögum og vikum, ef af boðaðri stórsókn sýrlenska stjórnarhersins gegn uppreisnarsveitum í borginni verður. Líklegt er talið að slík sókn mundi loka síðustu útleið borgarbúa til landamæranna að Tyrklandi og skrúfa fyrir allan aðflutning á nauðsynjum á borð við mat og lyf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem fer með samræmingu hjálpar- og neyðaraðstoðar á stríðshrjáðum svæðum. Óttast er að á bilinu 100.000 - 150.000 manns muni freista þess að flýja borgina á næstunni, af ótta við að lokast inni að öðrum kosti.