Aldrei fór ég suður í nýtt húsnæði

18.01.2016 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Tími kominn fyrir breytingar," segir Birna Jónasdóttir, rokkstýra Aldrei fór ég suður. Tónleikar tónlistarhátíðinnar verða í ár haldnir í nýjum húsakynnum rækjuvinnslunnar Kampa á Eyrinni á Ísafirði, en undanfarin ár hefur hátíðin farið fram í Grænagarði, sem er nokkurri fjarlægð frá miðbænum.

Birna segir nýja rýmið vera mjög svipað að stærð og það í Grænagarði: „Þetta er ný skemma og nokkuð tóm, sem hentar tónleikahaldinu vel." Birna segir að hátíðarskipuleggjendurna hafi lengi langað til að færa hátíðina í bæinn. Á síðasta ári voru þau með nokkra viðburði í bænum sem reyndist vel. Þau vonast til að þannig megi virkja verta og aðra þjónustuaðila í bænum og toga fólk í bæinn. Það sé hvatning fyrir því að færa alla hátíðina aftur á Eyrina, en fyrir árið 2009 fór hátíðin fram á Eyrinni. Skemma Kampa stendur við Ásgeirsgötu á móti Háskólasetri Vestfjarða.

Nú er verið að leggja lokahönd á dagskrána: „Vonandi verða fleiri góðar fréttir á næstu dögum og vikum," segir Birna. Hún segir að það sé að mörgu að huga svona á lokametrunum og leitast skipuleggjendur eftir því að halda fjölbreytileikanum: „Að það sé eitthvað fyrirr alla." Nú þegar hefur tilkynnt að hljómsveitin Risaeðlan mun koma saman á ný og verða meðal þeirra hljómsveita sem spila á hátíðinni sem verður 25. og 26. mars. 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV