Álag á skurðstofur Landspítalans

11.07.2011 - 18:12
Þrisvar sinnum fleiri bíða eftir aðgerðum vegna vélindabakflæðis og þindarslits en á sama tíma í fyrra og biðin hefur lengst um ellefu vikur. Álag á starfsfólk og skurðstofur Landspítala veldur biðinni.

Þrisvar á ári birtir landlæknir samantekt um fjölda sjúklinga sem bíða valdra aðgerða og hafa beðið þrjá mánuði eða lengur. Almennt hefur ekki orðið fjölgun á biðlistum eftir aðgerðum frá því febrúar segir á fréttabréfi landlæknis Talnabrunni, sem birtir nýja samantekt í dag. Fækkað hefur um fjörutíu prósent þeim sem bíða eftir brjóstaminnkun frá því í ársbyrjun í fyrra.

Enginn er á biðlista eftir kransæðaaðgerð eða aðgerð á hjartalokum og biðlisti vegna hjarta eða kransæðamyndatöku og víkkana hefur styst lítilega frá síðustu samantekt í febrúar. Á biðlistum eftir gerviliðaaðgerðum á mjöðm og hné hefur talsvert fækkað en biðtíminn er langur allt að ári og staðan er svipuð og hún var um sama leyti í fyrra.

Fjölgað hefur þeim sem bíða eftir aðgerðum vegna vélindabakflæðis og þindarslits, slíkra aðgerða bíða nú tuttugu og tveir einstaklingar, þrisvar sinnum fleiri en á sama tíma í fyrra. Biðtíminn eftir slíkum aðgerðum hefur líka lengst úr átján vikum í fyrra í tuttugu og níu vikur nú, eða um ellefu vikur.

Álag á skurðstofur og starfsfólk Landspítalans veldur biðinni en hún lengri bið er þó ekki talin hafa áhrif á horfur sjúklinganna samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Eftir aðgerðum vegna kviðslits bíða nú tuttugu og fjórir en voru tíu á sama tíma í fyrra og biðtíminn á Landsspítala hefur lengst úr tæplega þremur vikum í níu. Biðlisti Landspítlala vegna legsigs og legnáms hefur líka lengst , í fréttabréfi Landlæknis er það skýrt með sameiningu Sankti Jósefsspítala við Landspítalannn snemma á árinu.