Ákvæði um alþingiskosningar flókið

08.01.2013 - 12:36
Mynd með færslu
Ákvæði um alþingiskosningar í tillögum stjórnlagaráðs er flókið og þingmenn ættu að íhuga hvort þeir vilji einfalda það. Þetta segir prófessor í stjórnmálafræði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

Á fundi nefndarinnar var fjallað um þá grein frumvarpsins sem fjallar um kosningar til Alþingis. Þar leggur stjórnlagaráð til róttækar breytingar, jafnt vægi atkvæða á öllu landinu, nýtt kosningakerfi, möguleika á persónukosningum og svo framvegis.

Ólafur Þ Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, var gestur fundarins. Hann tekur ekki afstöðu til þess kerfis sem dregið er upp af stjórnlagaráði en á fundinum var meðal annars bent á hve ákvæðið er flókið, löng upptaling á því sem er skylt að hafa í kosningakerfi og því sem er heimilt að hafa.

Ólafur segir að eitt af því sem þingmenn ættu að íhuga sé hvort þeir vilji láta ákvæðið, eins og það er í tillögum stjórnlagaráðs, standa. „Það er ákvæði þar sem Alþingi er heimilað ýmislegt og verður sumpart flókið. Þannig að ég held að menn ættu að hugleiða að hafa þetta einfaldara, “ segir Ólafur.

Ólafur segist síðan hafa lagt áherslu á það við þingmennina, vegna þess að í rauninni sé þinginu falin veruleg tækifæri til að útfæra þetta kosningakerfi í tillögum stjórnlagaráðs, að þeir skoði vandlega þau ákvæði sem samþykkt verða í stjórnarskrá að þau rími við þær útfærslur á kosningakerfi sem líklegt er að þingið vilji fá.

Eitt atriði úr greininni sé þó mikilvægara en önnur, að mati Ólafs: „Ég held að það sé lang mikilvægasta ákvæðið, það er jöfnun atkvæðavægis. Við höfum verið tiltölulega langt á eftir flestum öðrum löndum, nágrannalöndunum,“ segir Ólafur.