Akureyri vinsæl í vetrarfríinu

26.02.2016 - 19:51
Gestum sem koma til Akureyrar í vetrarfrí hefur fjölgað mjög síðustu ár. Þó nokkur vinna hefur farið í að markaðssetja bæinn og Hlíðarfjall sem áfangastað á þessum árstíma.

Fyrir ekki svo löngu síðan voru páskarnir sá tími þegar hvað flestir heimsóttu bæinn til að fara á skíði í Hlíðarfjalli eða til að njóta annars sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Nú hins vegar eru þrjár vikur í febrúar vel merktar inn á dagatalið hjá þeim sem bjóða einhvers konar þjónustu í bænum.

Unnið hefur verið markvisst að því að fá fólk til Akureyrar á þessum tíma árs.

„Þetta er það sem við höfum verið að vinna að síðustu ár og þetta hafa verið frábærir tveir dagar og svo verður helgin bara betri og vetrarfríin eru farin eru farin að sanna sig að fólk er farið að ferðast saman og njóta þess að vera saman með fjölskyldunni,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls.

Fréttastofa ræddi við gesti í Hlíðarfjalli í dag, um það hvers vegna þeir kjósa að koma til Akureyrar í vetrarfrí. Sjá má viðbrögð þeirra í spilaranum hér að ofan.

 

 

 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV