Ákærðir fyrir aðild að hryðjuverkum í Danmörku

03.02.2016 - 23:45
Mynd með færslu
 Mynd: politi.dk
Fimm menn voru í dag ákærðir í Danmörku vegna hryðjuverka í Kaupmannahöfn í febrúar í fyrra. Fjórir þeirra eru ákærðir fyrir brot á dönsku hryðjuverkalögunum, að því er kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsind DR.

 

Hryðjuverkaárásirnar voru tvær. Sú fyrri var gerð á menningarhús við Austurbrú þar sem stóð yfir ráðstefna um tjáningarfelsi. Þar lést einn og þrír særðust. Sú síðari var framin við menningarmiðstöð gyðinga á Kristalsgötu. Þar féll einn og tveir særðust. Talið er að Omar el-Hussein, 22 ára Dani af arabískum uppruna, hafi verið að verki. Meintir aðstoðarmenn hans, á aldrinum 19-31 árs, voru handteknir í febrúar og mars í fyrra. Fjórir þeirra eru enn í gæsluvarðhaldi. Þeim fimmta var sleppt fyrir hálfum mánuði. Mennirnir eru meðal annars ákærðir fyrir að hafa útvegað Omar el-Hussein skotvopn og skothelt vesti. Nokkrir í hópnum tengjast glæpahópum í Kaupmannahöfn og hafa hlotið dóma.