Áhyggjur af kjaradeilu ljósmæðra

31.01.2016 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afar erfitt yrði fyrir Landspítalann að hafa mæður inniliggjandi ef heimaþjónusta ljósmæðra leggst af. Þetta segir yfirlæknir vökudeildar. Mikilvægt sé að samningar takist um greiðslur til ljósmæðra. Umtalsverður sparnaður sé fyrir spítalann að geta sent mæður og börn snemma heim.

Hópur ljósmæðra greindi frá því í síðustu viku að þær myndu ekki sinna heimaþjónustu um helgina til að mótmæla tilboði Sjúkratrygginga Íslands um eins prósents hækkun á samningi um þjónustuna á þessu ári.

Þórði Þórkelssyni, yfirlækni á vökudeild Landspítalans, líst ekki vel á stöðuna. „Mér líst mjög illa á ef ekki næst að semja vegna þess að þessi þjónusta er mjög mikilvæg bæði fyrir börn og konur. Að geta sent mæður og börn heim tiltölulega fljótt heim eftir fæðingu það gerir það að verkum að það er töluverður fjárhagslegur sparnaður fyrir spítalann og þetta er nokkuð sem fjölskyldan vill í langflestum tilvikum, þ.e.a.s. ef móðir og barn eru tilbúin að fara heim að þau geti það. En til þess að fyllsta öryggis sé gætt þarf að fylgja þeim eftir fyrstu dagana eftir fæðingu,“ segir Þórður.

 

 

Það sé afar brýnt að fylgjast með hvort móðirin mjólki nóg og barnið þrífist vel. Þá geti börn fengið gulu eða veikst á annan hátt. Ljósmæður séu afar góðar í að greina slíkt.

Þórður segir að leggist heimaþjónusta af þyrftu sumar mæður og börn að liggja lengur inni á spítalanum. En er plássið á spítalanum nógu mikið? „Þetta myndi skapa umtalsverða erfiðleika og þess vegna er mikilvægt að þessi þjónusta verði áfram,“ segir Þórður. „Það hafa verið óvenjufáar fæðingar undanfarna daga þannig að okkur hefur tekist að senda allar mæður heim eins og áður þannig að þessar aðgerðir hafa ekki haft umtalsverð áhrif á starfsemina enn sem komið er,“ segir Þórður.

 

 

Ljósmæður hafa óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra. Þá ætla þær að funda í sínum hópi á miðvikudagskvöld.