RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Áhrif orðavals á viðhorf okkar og líðan

Orðaval getur haft mikil áhrif á líðan okkar. Hvern langar til dæmis út þegar það rignir eldi og brennisteini? Sennilega fáa. En það er bara hressandi að fara út þegar það gustar um okkur, þótt hann hreyti úr sér smávegis rigningu.

 

Við skólasetningu í vikunni sagði skólastjóri við nemendur sína að honum fyndist að þeir ættu að temja sér jákvæðni. Orðaval getur nefnilega haft mikil áhrif á líðan okkar. Um það leyti sem margir grunnskólar voru settir var rigning á höfuðborgarsvæðinu og skólastjórinn tók það sem dæmi og benti krökkunum á að það væri hægt að segja að það rigndi eldi og brennisteini, að það væri hellirigning eða bara að það væri frekar blautt úti.

Það er mikið til í þessu. Hvern langar út þegar veðrið er ömurlegt? Engan. En hver vill fara út í hressandi rok og rigningu? Alla vega ég.

Það blandast engum hugur um að veðrinu var misskipt í sumar og að það var óskaplega lítið skemmtilegt á Norður- og Austurlandi. Um miðjan júlí fór hitastig í þessum landshlutum alveg niður undir fimm gráður. Dóttir mín, mjög jákvæð manneskja, var þá á leið á tónlistarhátíð á Austurlandi og ég hafði áhyggjur af því að hún væri ekki nógu vel búin, það væri svo hræðilega kalt. Dóttir mín sagði þá við mig að það væri ekki rétt hjá mér, það væri ekki hræðilega kalt, það væri bara ekki mjög hlýtt. Með það fór hún á hátíðina og mamman sat eftir, gáttuð á skynseminni í dótturinni og rólegri yfir veðrinu. Því að þetta var auðvitað alveg hárrétt hjá henni. Og í byrjun ágúst, þegar djúp lægð, gekk inn yfir suðvesturhornið og veðurfræðingar voru spurðir kvíðablandinni röddu, hvort þetta væri fyrsta haustlægðin svöruðu þeir því til að þetta væri alls ekki haustlægð heldur mjög djúp sumarlægð. Mér létti að minnsta kosti. Sumarið var ekki búið, haustlægðirnar ekki komnar. Allt var áfram gott.

Jákvæðni er ekki það sama og að láta allt yfir sig ganga.

Ég hugsa að margir taki undir með mér þegar ég held því fram að neikvæðni sé landlæg á Íslandi. Við Íslendingar erum meistarar í að tala hlutina niður og spara ekki stóru orðin. Neikvæðnin birtist skýrast í svokölluðum kommentakerfum og maður furðar sig oft á því hvað hægt er að vera neikvæður og svartsýnn. Margir sem vilja halda í jákvæðnina forðast af öllum mætti að lesa athugasemdir undir fréttum á vefmiðlunum.

Þótt ég hvetji til jákvæðni er ég ekki að segja að við eigum að leggja af gagnrýna hugsun og láta jákvæðnina gera okkur að lyddum sem láta allt yfir sig ganga. Nei, þvert á móti. Málefnaleg og uppbyggileg gagnrýni er mun farsælli en eilíft svartagallsraus.

Umræðan um tungumálið er oft á neikvæðum nótum

Tökum sem dæmi hvernig umræðan um tungumálið getur verið. Sjáist villa á prenti er hún umsvifalaust afrituð, mynduð eða skjalfest á annan hátt. Síðan er henni deilt á samfélagsmiðlunum og þá hefur kór þeirra, sem betur vita, upp raust sína og fordæmir þann sem varð það á að skrifa vitlaust, þann sem réð hann í vinnu og miðilinn sem birtir vitleysuna, og ef hann er ekki fordæmdur þá er hann í það minnsta hæddur og spottaður. Vissulega er gott að veita aðhald og að sjálfsögðu ættu allir að vanda sig þegar þeir þurfa að senda frá sér ritað mál, hver sem vettvangurinn er. En það er ekki sama með hvaða formerkjum aðhaldið er. Ég er þeirrar skoðunar, og hef verið lengi, að neikvæð umræða um málið ýti ekki undir vöxt þess og viðgang heldur geti hún þvert á móti skaðað málið.

Tökum nú tvö nýleg dæmi um tvær sagnir, sem eru reyndar merkingarlega tengdar.

Fyrst er það sögnin að svelta. Í sjónvarpsfrétt um daginn var rangt farið með hana. Notaður var lýsingarhátturinn svelt þegar það hefði átt að nota lýsingarháttinn soltið. Vandlætingarkórinn hóf upp raust sína, hafði bara aldrei heyrt annað eins og með þessum ósköpum keyrði um þverbak í vitleysunni í fréttaflutningi.

En hefði nú ekki bara verið bæði jákvæðara og uppbyggilegra að staldra aðeins við og velta því fyrir sér hvað þarna væri á seyði. Greina vandann í stað þess að fordæma manneskjuna sem varð á að beygja vitlaust.

Sögnin að svelta leynir á sér og eins og oft er með villur var þessi ekki alveg úr lausu lofti gripin. Hún hefur nefnilega tvenns konar beygingu, veika og sterka, og það er merkingarmunur í þeim fólginn.

Veika beyginginn er þannig í kennimyndum: svelta – svelti – svelt.

Lýsingarháttur þátíðar er ‚hafa svelt‘.

Með veiku beyginguna merkir svelta að láta einhvern líða hungur. Dæmi: Hesturinn var illa á sig kominn þegar hann fannst enda hafði eigandi hans svelt hann um langa hríð.

Sterka beygingin er þannig í kennimyndum: svelta – svalt – sultum – soltið.

Lýsingarháttur þátíðar er ‚ hafa soltið‘.

Með sterku beyginguna merkir orðið að líða hungur. Dæmi: Hesturinn var illa á sig kominn þegar hann fannst og hann hefði fljótlega soltið í hel.

Er það nema von þótt einhver sé ruglaður í málnotkuninni? Nefnifallsmynd þessara orða er hin sama og orðin eru frekar torskilin en villan er rökrétt. Fréttamaðurinn valdi t.d. alveg réttan hátt, þ.e. lh.þt. en óvart vitlaust beygingakerfi.

Önnur sögn, sem líka tengist hungri er sögnin að seðja. Að þessu sinni var sá seki blaðamaður en ekki fréttamaður í sjónvarpi. Honum varð það á að setja í myndatexta þátíðarmyndina seðjaði. Það varð heldur betur vatn á myllu kölska.

Þátíðin af sögninni seðja er nefnilega saddi, en ekki seðjaði. En í stað þess að halda því fram að bara hálfvitar tali svona og fréttirnar séu skrifaðar af bjánum sem þekkja hvorki haus né sporð á málinu, hefði verið miklu skemmtilegra að velta fyrir sér hvernig á þessasri beygingu stæði.

Seðja hefur veika beygingu en það þýðir ekki að orðið hafi alveg reglulega beygingu því að það hefur annan stofn í nútíð en þátíð, seðja – saddi. Sá sem ekki þekkir orðið dregur þá ályktun að það hafi reglulega veika beygingu og velur þá sem liggur í augum uppi, þá reglulegustu.

Þessi tvö dæmi sýna okkur hvað málið getur verið óreiðukennt og hvað við höfum mikla þörf fyrir að hafa það eins reglulegt og kostur er. Ef við leggjum nú vandlætinguna til hliðar og skoðum ástæðuna fyrir því að fólki verður á í messunni komumst við að því að villur eru oftast rökréttar og áttum okkur á því hvað málið er heillandi fyrirbæri. Því getum við velt upp og það getum við bent á í stað þess að  hnussa yfir mistökum annarra og setja okkur á háan helst og kalla annað fólk bjána.

28.08.2015 kl.18:18
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútgáfan