Áhættumat leyfir sjö sinnum meira eldi

14.07.2017 - 20:51
Vestfirðir og Austfirðir þola sjöfalt meira eldi á frjóum laxi, samkvæmt nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar, sem unnið var fyrir starfshóp um stefnumótun í fiskeldi við Ísland. Þar er þó lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem þrjú fiskeldisfyrirtæki áforma stórfellt eldi. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar telur að áhættumatið geti jafnvel stuðlað að sátt um greinina en segir matið síkvikt og geta breyst.

71 þúsund tonna laxeldi

Hafrannsóknastofnun vann áhættumatið fyrir starfshóp sem vinnur að stefnumótun í fiskeldi til að meta áhættuna á erfðablöndun eldislax í sjókvíum við íslenska laxastofna. Sigurður Guðjónsson er forstjóri Hafrannsóknastofnunar: „Um leið og sett er eitthvað eldi í djúpið þá fer fjöldi laxa í þær yfir viðmiðunarmörk. Þannig að við mælum ekki með eldi í Ísafjarðardjúpi og sama gildir um Stöðvarfjörð fyrir austan og auk þess viljum við ekki auka eldi í Berufirði vegna nálægðar við Breiðdalsá.“ Niðurstaða matsins er að Vestfirðir þoli 50 þúsund tonn og Austfirðir 21 þúsund tonna eldi á frjóum laxi án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum. Eyjafjörður var ekki tekinn með í áhættumatinu þar sem burðarþol fjarðarins hefur ekki verið metið.

Gera áhættulíkan

„Við notum bestu fáanlegu upplýsingarnar, bæði erlendar og innlendar, og reynum að meta líkurnar á því hvert fiskurinn fer sem sleppur í laxeldinu – en það sleppir alltaf fiskur úr sjókvíaeldi. Það líkan gefur okkur þessar niðurstöður.“ Þá var leitað samstarfs við erlenda erfðafræðinga.

Áhættumatið verður sannreynt og uppfært með viðamikilli vöktun í laxveiðiám sem gætu breytt forsendum áhættumatsins: „Laxeldi í dag er eitthvað um tíu þúsund tonn, þarna erum við að tala um að auka það sjöfalt. Það mun taka einhvern tíma 8-10 ár en á meðan gætu vissulega komið fram vísbendingar um að það væri óhætt að hafa meira eldi eða að það þyrfi að minnka.“ Þá eru lagðar til mótvægisaðgerðir sem gætu jafnframt breytt áhættumatinu. Skýrsla áhættumatsins útilokar ekki meira laxeldi svo lengi sem að laxinn er geldfiskur. 

Skilað til nefndar og ráðherra

Áhættumatinu verður nú skilað til sjávartúvegsráðherra, sem mun taka mið af vinnu starfshópsins við stefnumótun fiskeldis á Íslandi. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar vonar að lagt verði hlutlægt mat á niðurstöðu áhættumatsins en burðarþol Ísafjarðardjúps er metið 30 þúsund tonn og þrjú fiskeldisfyrirtæki eru nú í umsóknarferli fyrir stórfelldu eldi í Djúpinu. „Ég hef þá trú á að þegar allt er skoðað þá verði ekki þessum gríðarlegu hagsmunum samfélagsins og svæðisins fórnað fyrir þetta heldur fundnar sjálfbærari leiðir til að taka tillit til þessa mats,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Stuðli jafnvel að sátt um greinina

Sigurður telur hins vegar að starfshópurinn muni líta til áhættumatsins og það muni jafnvel stuðla að sátt um greinina sem hefur verið mjög umdeild: „Vissulega vonumst við til þess að svo muni verða svo að það verði ákveðinn starfsfriður um að vinna þetta. Og eins og ég segi þá er þetta kvikt mat svo þetta getur breyst í báðar áttir.“