Aftöku frestað á elleftu stundu

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Í Missouri í Bandaríkjunum fyrirskipaði ríkisstjórinn frestun á aftöku fanga, aðeins fjórum stundum áður en hún átti að fara fram. Lögfræðingar fangans, sem dæmdur var fyrir morð árið 1998, lögðu fram ný sönnunargögn í málinu, sem þykja benda til þess að einhver annar hafi framið glæpinn. Marcellus Williams var handtekinn, ákærður og dæmdur fyrir að hafa brotist inn til blaðakonu í St. Louis og myrt hana á hrottalegan hátt, þegar hún stóð hann að verki.

Ný rannsókn á erfðaefni sem fannst á hnífnum sem notaður var við illvirkið sýnir fram á, að sögn verjenda Williams, að skjólstæðingur þeirra hafi ekki mundað hnífinn, heldur einhver annar, óþekktur maður.

Repúblikaninn Eric Greitens, ríkisstjóri Missouri, lýsti því yfir þegar hann frestaði aftökunni, að þar sem dauðarefsing verði aldrei aftur tekin sé nauðsynlegt að tryggja fullkomlega, að sekt hins dæmda sé hafin yfir allan vafa. Því hefur hann skipað rannsóknarnefnd, sem á að fara yfir nýju sönnunargögnin og ráðleggja honum svo um framhaldið.

Yfir 200.000 manns skrifuðu undir áskorun á Greitens um að slá aftökunni á frest og beita sér fyrir endurupptöku málsins, þar sem þessi nýju gögn verði tekin til greina. Saksóknarinn í máli Williams segist enn fullviss um sekt hans. Segir hann fjölda sönnunargagna liggja til grundvallar þeirri vissu; hnífurinn sé aðeins eitt af mörgum. Þar að auki séu niðurstöður nýju DNA-rannsóknarinnar langt í frá afgerandi, að hans sögn.

16 dauðadómum hefur verið fullnægt í  Bandaríkjunum það sem af er ári. Fimm hafa verið líflátnir í Texas, fjórir í Arkansas, tveir í Virginíu og Alabama og einn í hverju um sig Montana, Georgíu og Ohio. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV