Afstaða jafnaðarmanna vekur undrun

13.01.2016 - 21:58
epa05089608 Danish Minister for Immigration, Integration and Housing Inger Stojberg during a press conference at the EU Commission in Brussels, Belgium, 06 January 2016. Swedish Migration Minister Morgan Johansson, German State Secretary of the Interior
Inger Stöjberg, ráðherra málefna innflytjenda og hælisleitenda í Danmörku.  Mynd: EPA
Stjórnvöld í Danmörku hafa ákveðið að framlengja landamæraeftirlit til að sporna við straumi flóttamanna. Umræður hófust í danska þinginu í dag um hvort heimila eigi upptöku verðmæta hjá hælisleitendum. Nokkra undrun hefur vakið að Jafnaðarmannaflokkurinn styður tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hópur fólks kom saman fyrir utan Kristjánsborg í dag til að mótmæla þessu umdeilda frumvarpi, sem felur meðal annars í sér að lögregla fær heimild til að hirða reiðufé og önnur verðmæti af hælisleitendum upp í kostnað af dvöl þeirra.

Frumvarpið hefur raunar verið mildað nokkuð frá fyrstu útgáfu því minnihlutastjórn Venstre verður að reiða sig á stuðning annarra flokka til fá það samþykkt. Nokkra undrun hefur vakið að Jafnaðarmannaflokkurinn styður tillögurnar.

Dan Jørgensen talsmaður flokksins í innflytjendamálum útskýrði afstöðu sína í þinginu í dag. Hann sagði að í fyrsta lagi teldi hann að þeir sem á annað borð gætu lagt eitthvað af mörkum ættu að gera það. Í öðru hefði jafnaðarmönnum tekist að fá ráðherrann til að gefa nokkuð eftir í málinu, til dæmis yrðu giftingarhringar og aðrir persónulegir munir í fórum hælisleitenda ekki gerðir upptækir. Hann fullyrti að hefðu jafnaðarmenn staðið á hliðarlínunni í stað þess að setjast að samningaborðinu hefði ásýnd frumvarpsins verið allt önnur.

Danska stjórnin tilkynnti líka í dag að skilríkjaeftirlit, sem tekið var upp á landamærum að Þýskalandi í ársbyrjun, yrði framlengt. Inger Støjberg innflytjendaráðherra sagði í samtali við fréttamenn að þetta væri nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að fjöldi flóttamanna á leið til Svíþjóðar yrðu strandaglópar í Danmörku.

Eftirlitið verður framlengt um tuttugu daga og svo endurnýjað ef þurfa þykir.

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV