Áfrýjar dómi í Ungverjalandi

22.01.2016 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk kona á fertugsaldri sem dæmd var í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás í Ungverjalandi í fyrradag hefur þegar áfrýjað dómnum. Konan, sem var læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þegar greint var frá ákærunni, var send í leyfi. Ráðningarsamningur hennar hefur nú runnið út. Verjandi hennar segir að hún haldi fram sakleysi sínu. Það sé ekki rétt sem fram hafi komið að ákæran lúti að tilraun til manndráps, heldur hafi hún verið ákærð fyrir alvarlega líkamsárás.

Konan var við læknanám í borginni Debrecen þegar atvikið átti sér stað sumarið 2012. Samkvæmt ákærunni voru hin ákærða og fórnarlambið góðar vinkonur. Kvöld eitt hafi hin ákærða boðið vinkonu sinni, sem er frá Nígeríu, í mat. Þá hafi hún verið búin að setja svefnlyf í mat vinkonunnar. Daginn eftir hafi hún svo barið vinkonu sína tvisvar í höfuðið með hamri. Stúlkunni tókst að komast út úr íbúðinni og gera vart við sig. Hún hafi verið flutt á spítala með áverka á höfði auk þess sem svefnlyf hafi fundist í blóði hennar. Íslenska stúlkan hafi verið horfin á braut þegar lögregla kom á staðinn, en lögreglumenn hafi fundið hamarinn. Í ungverskum miðlum hefur komið fram að ekkert sé vitað um ástæður verknaðarins. Íslenska konan var handtekin skömmu síðar en neitaði sök.

Fram kemur í dómsorði að ósamræmi hafi verið í málflutningi hennar. Hún hafi bæði haldið því fram að þriðji aðili hafi ráðist á nígerísku stúlkuna og að hún hafi lánað nígerísku stúlkunni peninga sem hún hafi ekki viljað borga til baka. Í dómnum segir að framburður nígerísku stúlkunnar og átta vitna hafi verið sannfærandi. Því þyki fimm ára skilorðsbundinn dómur hæfilegur, auk þess sem konunni er óheimilt að koma til Ungverjalands næstu fimm ár.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, verjandi konunnar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að dómnum hafi þegar verið áfrýjað. Umbjóðandi hennar haldi fram sakleysi sínu og muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að hreinsa sig af þessum ásökunum. Þá segir Ingibjörg það ekki rétt sem fram hefur komið að ákæran lúti að tilraun til manndráps, heldur hafi hún verið ákærð fyrir alvarlega líkamsárás.

Konan hafði starfað sem læknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi í um eitt ár þegar greint var frá ákærunni í október. Þá var hún send í launað leyfi frá störfum. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni í morgun var konan með tímabundna ráðningu sem rann út eftir að málið kom upp. Annar starfsmaður hafi nú verið ráðinn í hennar stað. Hvað mögulegt framtíðarstarf konunnar varðar sagði mannauðsstjóri stofnunarinnar að horfa verði til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir meðal annars að þeir skuli forðast að hafa nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem sé þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða geti varpað rýrð á það starf sem þeir vinna við.