Áfram í haldi vegna rannsóknar á lögreglumanni

12.01.2016 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms þess efnis að maður, sem talið er að hafi átt í samskiptum við fíkniefnalögreglumann, skuli sitja í gæsluvarðhaldi til 15. janúar vegna rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn í liðinni viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald 8. janúar.

Maðurinn er sá sem fíkniefnalögreglumaðurinn talar við á upptöku sem barst ríkissaksóknara fyrir jól. Maðurinn hefur nokkrum sinnum hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot, m.a. hálfs árs fangelsisdóm. Lögreglumaðurinn er grunaður um misferli í starfi, að hafa þegið fé í skiptum fyrir upplýsingar. Ríkissaksóknaraembættið fer með rannsókn málsins og nýtur til þess stuðnings lögreglumanna frá ríkislögreglustjóraembættinu, meðal annarra fyrrum yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en sá hætti störfum fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir um níu árum.

Fíkniefnalögreglumaðurinn hefur verið leystur frá störfum tímabundið. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá áramótum en var látinn laus 7. janúar. Rannsókn málsins er í fullum gangi og að henni lokinni verður tekin afstaða til þess hvort rétt sé að víkja honum alfarið úr starfi.