Áfram él fyrir norðan og austan í dag

14.01.2016 - 06:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Spáin í dag og í kvöld gerir ráð fyrir hægri norðlægri átt, en strekkingi austast á landinu. Það verður léttskýjað sunnan og suðvestan til en áfram él fyrir norðan og austan fram eftir degi. Þá dregur úr vindi og kólnar í veðri. Í kvöld er útlit fyrir hæga suðlæga átt og léttskýjað veður víða um land.

Á morgun má búast við éljum norðvestanlands, við Snæfellsnes og norður af
því, og einnig suðaustan til. Síðdegis þykknar síðan upp um landið suðvestanvert og
hlýnar með snjókomu eða slyddu um kvöldið. Það úrkomubelti leysist
upp á laugardag og er útlit fyrir úrkomulítið veður og að mestu hæga
austlæga átt það sem eftir lifir af helginni. Eftir helgi stefnir í suðlæga átt og hlýnandi veður um allt land með rigningu sunnan- og vestanlands.

Hálka er víða á fjallvegum og heiðum landsins og þæfingsfærð er á nokkrum fáfarnari vegum norðanlands. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV