Áformum Norður-Kóreu mótmælt víða

03.02.2016 - 05:25
FILE - In this Dec. 12, 2012 file photo released by Korean Central News Agency, North Korea's Unha-3 rocket lifts off from the Sohae launch pad in Tongchang-ri, North Korea. Though it remains a highly unlikely scenario, Japanese officials have long
 Mynd: AP  -  KCNA
Áform Norður-Kóreu um að skjóta gervihnetti á braut um jörðu hafa mætt harðri gagnrýni. Stjórnvöld í Japan, Bandaríkjunum og nágrannaríkinu Suður-Kóreu segja skotið vera brot á alþjóðasáttmálum og landið verði að gjalda þess láti það verða af skotinu. Öll ríkin telja að um sé að ræða tilraun með langdræg flugskeyti.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem áformin eru sögð veruleg ógn við heimsfrið og öryggi. Norður-Kórea verði að hætta við skotið þar sem það stríði gegn ályktun Sameinuðu þjóðanna. Láti stjórnvöld hins vegar verða af skotinu muni þau þurfa að gjalda fyrir það dýru verði.

Bandarísk stjórnvöld hóta að herða enn á refsiaðgerðum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna láti Norður-Kórea verða af skotinu. Landið sé með þessu að storka öryggisráðinu, Kína og alþjóðasamfélaginu.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, tekur undir áhyggjur bandarískra stjórnvalda. Hann segir skotið vera alvarlega ögrun og stríða gegn ályktun Sameinuðu þjóðanna. Japanska varnarmálaráðuneytið segir í yfirlýsingu að ef ljóst þyki að flugskeytið lendi á japönsku landsvæði verði það skotið niður.
Sjálfir segja Norður-Kóreumenn að skotið sé einvörðungu geimskot í vísindaskyni.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV