Afnám gjaldsins myndi lækka vöruverð

21.01.2016 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, segir að verði útboðsgjald tekið af þýði það verðlækkun á þessum vörum í framtíðinni. „Þetta gjald kostar neytendur 330 milljónir króna á þessu ári.“

Hæstiréttur dæmdi í dag íslenska ríkið til að endurgreiða Högum, Innnesi og Sælkeradreifingu samtals rúmlega 500 milljónir króna sem fyrirtækin voru krafin um vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum til Íslands, annars vegar í tollkvóta og hins vegar sem greiðslu á magntolli fyrir landbúnaðarafurðir. Greiða þurfti vegna innflutnings á ostum, pyslum og kjöti svo eitthvað sé nefnt. 

Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið til að greiða Högum 245 milljónir krónaInnnesi 212 milljónir og Sælkeradreifingu 52 milljónir króna. 

„Þarna er verið að endurgreiða fyrirtækjunum oftekna skatta og gjöld fram í júní árið 2013. Það var haldið áfram að rukka þetta gjald eftir að því tímabili lauk sem dómurinn tekur til. VIð teljum því að fyrirtækin eigi enn hærri kröfu á ríkið,“ segir Ólafur. „Eftir að dómur féll í mars í fyrra í Héraðsdómi Reykjavíkur þá breytti Alþingi lögunum og reyndi að gera útboðsgjaldið lögmætt í júlí. Við erum ekki sannfærð um að breytingarnar dugi til og teljum að enn sé ólögmæt gjaldtaka. Ef útboðsgjaldið verður tekið af þá þýðir það verðlækkun á þessum vörum í framtíðinni en þetta gjald kostar neytendur 330 miljónir króna bara á þessu ári.“

Ólafur segir að framhaldið ráðist af viðbrögðum stjórnvalda.„Við teljum einboðið að stjórnvöld endurskoði gjaldtökuna því hún heldur ekki. Það kæmi hinsvegar ekki á óvart ef stjórnvöld halda henni til streitu.“

Hæstiréttur taldi það fara í bága við stjórnarskrá að ráðherra hefði frjálst val um það hvort hlutkesti skyldi ráða því hvort umsækjendur um meiri innflutning vöru umfram tollkvóta eða hvort leitað skyldi tilboða í hemildir til innflutnings. Í þeirri skipan hefði falist að ráðherra gæti einhliða ákveðið hvort greiða skyldi gjald fyrir tollkvóta eða ekki 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV