Afkomendur Titos fá ekkert

25.01.2016 - 17:04
epa00702626 A man holds a picture of former Communist-era Yugoslav president Josip Broz Tito during a Labour Day protest rally in Sarajevo, Monday 01 May 2006. The protest organized by labour unions and several civic associations drew up to a thousand
Maður með mynd af Josip Broz Tito í mótmælum í Sarajevo 1. maí 2006.  Mynd: EPA
Dómstóll í Belgrad komst að þeirri niðurstöðu í dag að afkomendur Josip Broz Tito, fyrrverandi leiðtoga gömlu Júgóslavíu, fengju ekkert af persónulegum eigum hans. Tito lést árið 1980, þremur árum seinna leituðu afkomendur til dómstóla og fóru fram á arf.

Fréttastofan AFP hefur eftir lögmanninum Nikola Barovic að afkomendur hafi þá fengið útgáfurétt og tekjur af bókum sem Tito skrifaði. Dómstóll hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að þeir fengju ekkert af persónulegum eigum. Þær tilheyrðu serbneska ríkinu. Að sögn AFP ætla afkomendur Titos að áfrýja dómnum.

Tito réð ríkjum í Júgóslavíu frá lokum síðari heimsstyrjaldar til dauðadags. Hann skildi eftir sig gríðarlegar eignir, sem árið 1985 voru lýstar ríkiseign.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV