Afgangur nýttur til að greiða skuldir

12.09.2017 - 11:57
Fjármálaráðherra segir merkilegast í fjárlagafrumvarpinu sem hann kynnti í morgun að í því er afgangur sem nýttur verður til að greiða niður skuldir og í þágu velferðarmála. Virðisaukaskattur verður ekki hækkaður á ferðaþjónustuna fyrr en 1. janúar 2019. Sex krónur af hverjum tíu úr ríkissjóði fara í heilbrigðismál og greiðslur til örorku- og ellilífeyrisþega.

Fjármálaráðherra segir að í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun sé reynt að stemma stigu við spennu á vinnumarkaði og hagsveiflu með því að borga niður skuldir ríkisins um 70 milljarða króna. Hann er vongóður um næstu kjarasamningar hins opinbera setji ekki strik í fjárlögin.

„Ég held kannski að það sé einna merkilegast að við erum með frumvarp þar sem er ákveðinn afgangur sem við getum nýtt til þess að borga niður skuldir. Það er svigrúm og við nýtum það í þágu velferðarmála,“ segir Benedikt.

Skiptir máli að borga niður skuldir

Jafnframt sé reynt að stemma stigu við þeirri spennu sem verið hafi á vinnumarkaði.

„Það má segja að ef við segjum að ríkið sé með afgang sem það nýtir til greiðslu skulda þá erum við að taka pening út úr hagkerfinu og það skiptir miklu máli þegar við erum í hagsveiflu og auðvitað skiptir það mjög miklu máli að við borgum niður skuldir.“

Benedikt segir skuldir ríkissjóðs háar og að ríkissjóður geri ráð fyrir að borga um 70 milljarða í skuldir, sem sé mjög hátt hlutfall af vergri landframleiðslu. „sem þýðir það að við verðum að einbeita okkur að því að borga þetta niður áfram svo við eigum þá meiri pening í einhverja gagnlegri hluti heldur en að vera bara að borga vexti.“

Nýr spítali og aukið fé í geðheilbrigðismál

Benedikt segir að reynt sé að forgangsraða í þágu velferðar. Byrjað verði að byggja nýjan spítala næsta haust og mikil jarðvinna verði unnin næsta ár. Nýi spítalinn verði bylting fyrir landsmenn: „bæði fyrir landsmenn alla því þarna verður nýr spitáli sem verðu miku betur tækjum búin en áður en auðvitað verður þetta líka bylting fyrir starffólkið sem fær þarna nýjustu tækni í stað þess að vera í gömlum spítala þar sem menn hafa þurft að eiga við myglu og aðra óáran.“

Þá standi til að auka framlög til sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og á heilsugæslustöðvum. „Þetta er eitt af því sem skiptir mjög miklu máli að setja aukið fé á þetta svið vegna þess að við sjáum það að það er ákall meðal þjóðarinnar að bæta við í geðheilbrigðismálum.“

Benedikt segir að þær skattabreytingar sem almenningur eigi mest eftir að finna fyrir séu hækkun á kolefnisgjaldi en á móti komi verði áfram ívilnað í þágu raf- og tvinnbíla næstu þrjú ár.

Kjarasamningaviðræðum byrja vel

Benedikt segist líta jákvæðum augum á komandi kjarasamninga, þeir fari vel af stað og á jákvæðum notum: „Báðir aðilar nálgast þetta með það að ná svona samningum sem standast þá erum við ekki bara að tala um launaþáttinn heldur að hugsa svona líka um kjaralega þáttinn starfsumhverfið osfrv. Þannig að ég er mjög bjartsýnn í upphafi samninga.“